Flugflotinn Icelandair hyggst nota flugvélar af gerðinni Dash 8 ef félagið hreppir sérleyfissamninginn til Hafnar.
Flugflotinn Icelandair hyggst nota flugvélar af gerðinni Dash 8 ef félagið hreppir sérleyfissamninginn til Hafnar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Þrjú tilboð bárust í rekstur áætlunarflugs milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði til næstu þriggja ára. Það bar til tíðinda að Icelandair bauð í verkefnið og átti lægsta tilboðið. Forveri Icelandair, Flugfélag Íslands, var á árum áður með áætlunarflug milli Reykjavíkur og Hafnar

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Þrjú tilboð bárust í rekstur áætlunarflugs milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði til næstu þriggja ára.

Það bar til tíðinda að Icelandair bauð í verkefnið og átti lægsta tilboðið. Forveri Icelandair, Flugfélag Íslands, var á árum áður með áætlunarflug milli Reykjavíkur og Hafnar.

Þeim rekstri var hætt fyrir rúmum tveimur áratugum því hann þótti ekki arðbær.

Morgunblaðið fékk upplýst hjá Guðna Sigurðssyni upplýsingafulltrúa Icelandair að ef gengið yrði til samninga við félagið væri gert ráð fyrir að flogið yrði til Hornafjarðar á DHC-8-200, Dash 8-flugvélum.

De Havilland Canada-vélarnar (DHC8), áður Bombardier, taka 37 farþega og í áhöfn eru þrír. Icelandair á þrjár slikar vélar sem eru fyrst og fremst notaðar fyrir flug til Ísafjarðar og Grænlands.

Icelandair tilkynnti í byrjun mars sl. að félagið hygðist hætta að fljúga til Ísafjarðar haustið 2026.

„Þetta snýr að því að við höfum verið að fljúga Bombardier Dash 200-vélum til Ísafjarðar, Ilulissat og Nuuk. Þetta eru einu vélarnar sem hafa komist á þá flugvelli, en nú sér fyrir endann á framkvæmdum á flugvöllunum á Grænlandi þar sem lengri brautir verða teknar í notkun á næsta ári. Þá munu stærri vélar geta flogið þangað. Þá verða þessar minni ekki samkeppnishæfar,“ sagði Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair í samtali við Morgunblaðið um þessa ákvörðun.

Þá verði í raun bara Ísafjörður eftir og sagði Bogi að þessi flugleggur myndi ekki standa einn undir rekstri slíkrar vélar. Hinar vélarnar sem Icelandair væri með í innanlandsfluginu kæmust ekki inn á Ísafjörð.

Með því að Icelandair vill taka upp flug til Hornafjarðar til haustsins 2028 með Dash 8 ætti að opnast möguleiki fyrir félagið að halda áfram flugi til Ísafjarðar.

Vegagerðin auglýsti 13. mars sl. útboð á flugleiðinni Reykjavík – Hornafjörður – Reykjavík. Samningstími er þrjú ár, frá 1. september 2025 til og með 31. ágúst 2028, með möguleika á framlengingu tvisvar, í eitt ár í senn.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilboðsfrestur var til 15. apríl og voru tilboð opnuð í síðustu viku.

Eftirtalin tilboð bárust: Icelandair ehf., Reykjavík, einingaverð á sæti kr. 21.824 án VSK, Air ehf., Garðabæ, einingaverð á sæti kr. 23.617 án VSK, og Norlandair, Akureyri, einingaverð á sæti kr. 44.872 án VSK.

Styrkfjárhæð fyrir flugleið (F1) er kr. 1.260.000.000 fyrir heildarverkið (þrjú ár). Verið er að yfirfara tilboðin hjá Vegagerðinni.

Vegagerðin samdi fyrir hönd ríkisins við flugfélagið Norlandair um að fljúga tíu flugferðir á viku milli Hafnar í Hornafirði og Reykjavíkur á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst 2025. Mýflug sinnti fluginu áður en óskaði eftir að losna undan samningi sínum við Vegagerðina.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson