Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Úrskurður Landsréttar í þessu mál sýnir glögglega erfiða stöðu hvað þessi mál varðar,“ sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við Morgunblaðið, þegar leitað var viðbragða hans við úrskurði Landsréttar í máli afbrotamanns frá Alsír sem leystur hefur verið úr haldi.
Tregir að taka við mannninum
„Í máli þessu hefur ekki reynst unnt að flytja manninn út fyrir Schengen-svæðið og til hans heimaríkis. Ræður för tregða viðtökuríkis til að taka á móti manninum. Án gildra ferðaskilríkja er fátt um fína drætti. Á meðan sitjum við uppi með manninn. Leita þarf nýrra leiða til að tryggja návist þeirra sem bíða brottvísunar úr landi. Horfi ég til vistunarúrræðis sem er ólíkt fangelsum eða fangaklefum lögreglu. Þá getur rafrænt eftirlit eða ökklabönd komið í stað slíkrar vistunar eða tilkynningarskyldu, að því tilskildu að lög leyfi, en í núverandi lögum um útlendinga er slík lagaheimild til rafræns eftirlits ekki fyrir hendi,“ segir Úlfar. „Þá er rétt að geta þess að lögregla ber ábyrgð á og annast landamæragæslu á landamærastöð og milli landamærastöðva. Lögregla skal skv. lögum um landamæri tryggja að útlendingar sem ekki uppfylla skilyrði komu til landsins fái ekki inngöngu í landið. Hið sama gildir þegar ekki liggur fyrir hvort útlendingar uppfylli skilyrði fyrir komu til landsins. Í þeim tilvikum sem svo háttar til er nauðsynlegt að til staðar sé úrræði til að hýsa þá útlendinga sem fá ekki inngöngu í landið á eða við landamærastöð, svo sem í eða við Keflavíkurflugvöll, enda geta þeir aðilar ekki sætt öðrum og vægari úrræðum inni í landinu, s.s. tilkynningarskyldu eða rafrænu eftirliti þar sem slíkt væri andstætt lögum um útlendinga og Schengen-samningnum. Í þeim tilvikum hefur einnig þurft að beita gæsluvarðhaldi þar sem lögreglan á Suðurnesjum hefur engin önnur úrræði en að fara fram á gæsluvarðhald yfir viðkomandi einstaklingum,“ segir hann.
„Maðurinn sætir í dag tilkynningarskyldu. Brjóti hann tilkynningarskyldu kemur til handtöku og gæsluvarðhalds í framhaldi af handtöku, enda önnur úrræði ekki tæk samkvæmt íslenskum lögum,“ segir Úlfar.
Úlfar bendir á að íslensk stjórnvöld hafi frá árinu 2008 verið skuldbundin til þess að tryggja vistunarúrræði annað en fangelsi fyrir þá útlendinga sem bíða brottvísunar. Þannig hátti ekki til hjá öðrum ríkjum sem taka þátt í Schengen-samstarfinu.
„Upplýsingar sem þessar eru mikilvægar og ánægjulegt að sjá Þorbjörgu S. Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra taka þetta fram í grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Hér er ekkert að fela en er ástæða til að bíða til haustsins með nauðsynlegar aðgerðir? Ég er ekki viss,“ segir hann.