Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Fimmtu sameiginlegu tónleikar Karlakórs Grafarvogs og Kvennakórsins Spíranna verða í Grafarvogskirkju á morgun, 1. maí, og hefjast þeir klukkan 16.00. Íris Erlingsdóttir kom að stofnun beggja kóranna og hefur verið stjórnandi þeirra frá upphafi. Kjartan Valdemarsson er píanóleikari karlakórsins og Vignir Þór Stefánsson píanóleikari kvennakórsins. Aðrir meðleikarar eru Birgir Steinn Theodórsson bassaleikari, Jóhann Hjörleifsson trommuleikari, Matthías Stefánsson fiðluleikari og Þórður Árnason gítarleikari.
Í karlakórnum, sem var stofnaður 2011, eru tæplega 40 söngvarar. Þar á meðal er Vesturbæingurinn Kristján Sverrisson. „Ég hef alltaf verið mikill áhugamaður um tónlist og þegar félagi minn bauð mér að koma í kórinn fyrir um 10 árum ákvað ég að slá til. Ég hef ekki séð eftir því, þetta er skemmtilegur félagsskapur og kórinn hefur tekið stöðugum framförum eftir að ég kom í hann.“
Efnismikil efnisskrá
Kórarnir hafa sungið saman á tveggja til þriggja ára fresti og er Kristján ánægður með það fyrirkomulag. „Það lífgar verulega upp á samkomuna og verður þróttmeira þegar komnir eru 70 söngmenn saman á pallana.“
Kórarnir syngja hvor sín lög og svo nokkur lög saman. Þar á meðal syrpu úr söngleiknum West Side Story. „Þetta gefur skemmtilega breidd,“ segir Kristján um samsönginn og bendir á að í kórunum séu flottar raddir og mjög færir söngvarar. „Við troðfyllum yfirleitt kirkjuna þegar við syngjum saman og svo erum við með hörkuhljómsveit með okkur, þar er valinn maður í hverju rúmi. Þetta er góður hópur og það verður fjör að vanda.“
Kvennakórinn var stofnaður fyrir um 11 árum og nú eru um 35 konur í honum. Petra Sigurðardóttir starfar á Hellu en vinnur í Reykjavík tvo daga í viku. Hún segir að þau hjónin hafi verið með styrktarlínu í efnisskrá sameiginlegra tónleika kóranna fyrir um þremur árum og fengið boðsmiða á tónleikana. Þá hafi hún fallið fyrir konunum. „Mér fannst þær svo geislandi og flottar og skellti mér í hópinn þegar ég fann út að æfingatímarnir hentuðu mér vel.“
Gleðin leynir sér ekki og Petra segir kórstarfið mjög skemmtilegt. Hún hafi verið í 20 ár í kvennakór á Selfossi en það sé ný reynsla að syngja saman með eins fjölmennum karlakór og Karlakór Grafarvogs sé. Lagaval Söngspíranna sé fjölbreytt og þær standi vel fyrir sínu á eigin tónleikum, en krafturinn aukist þegar karlarnir bætast við. „Þá gerist eitthvert undur, krafturinn verður gífurlegur, og gaman er að vera með í því en sjaldgæft er að blandaðir kórar séu með svona mörgum karlmönnum. Þetta er mjög skemmtilegur vinkill. Íris er algjör snillingur í að koma þessu öllu saman og finna lög sem eru létt og skemmtileg og henta fyrir þennan stóra, blandaða kór.“