Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður, hyggst fara í níu mánaða launalaust námsleyfi frá Alþingi í sumarlok og sækja nám í opinberri stjórnun vestanhafs. Þetta kynnti Áslaug Arna á félagsmiðlum í gær, en hún…

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður, hyggst fara í níu mánaða launalaust námsleyfi frá Alþingi í sumarlok og sækja nám í opinberri stjórnun vestanhafs.

Þetta kynnti Áslaug Arna á félagsmiðlum í gær, en hún hefur þekkst boð Columbia-háskóla í New York-borg um að sækja MPA-nám í opinberri stjórnun á alþjóðavísu (Master in Public Administration in Global Leadership).

Hún kvaðst halda vestur um haf til þess að „stækka sjóndeildarhringinn, bæta við mig þekkingu og reynslu sem mun án efa reynast mér mikilvægt veganesti inn í framtíðina“.

Ekki á leið úr pólitík

Áslaug Arna tók skýrt og afdráttarlaust fram að hún væri alls ekki að draga sig út úr stjórnmálum þótt hún ætlaði að grípa þetta tækifæri.

„Ég er hvergi nærri hætt í stjórnmálum,“ segir hún um það.

Stóra verkefnið hjá Sjálfstæðisflokknum næsta árið sagði hún hins vegar vera sveitarstjórnarkosningar, ekki þá síst að flokkurinn næði vopnum sínum í Reykjavíkurborg.

Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður er varaþingmaður Áslaugar Örnu og tekur tímabundið sæti á Alþingi í hennar stað í haust.

Leiðtoganám

Columbia-háskóli er einn virtustu háskóla Bandaríkjanna í hjarta New York-borgar á Manhattan-eyju. Um er að ræða sérsniðið nám ætlað reyndum stjórnendum og stefnumótendum úr opinbera geiranum og alþjóðastofnunum. Þar eru samtvinnaðar kjarnagreinar í stjórnun, stefnumótun, stjórnsýslu og hagfræði, með þverfaglega nálgun við flókin viðfangsefni að markmiði.

Fram kemur í kynningu skólans að nemendahópurinn sé lítill en komi víða að, sérvalinn með hliðsjón af starfsreynslu og áhrifagetu. Námið er sagt þétt og krefjandi; það byggist á virkum umræðum, samstarfi og tengslaneti, til að styrkja þátttakendur í stefnumörkun og stjórnun, til umbótastarfs og alþjóðasamvinnu.

Höf.: Andrés Magnússon