Kópavogsbær hefur ráðið í tvær nýjar stjórnunarstöður. Védís Hervör Árnadóttir mun stýra nýrri skrifstofu umbóta og þróunar en hún hefur síðustu fimm ár verið forstöðumaður miðlunarsviðs hjá Samtökum atvinnulífsins. Þá hefur Sindri Sveinsson verið ráðinn áhættu- og fjárstýringarstjóri hjá bæjarfélaginu. Hann hefur starfað hjá Kópavogsbæ síðustu 16 ár, síðast sem deildarstjóri greiningardeildar á skrifstofu áhættu- og fjárstýringar.
Þessar ráðningar eru hluti af miklum breytingum hjá Kópavogsbæ en tilkynnt var í febrúar síðastliðnum að stjórnsýslusvið og fjármálasvið bæjarins yrðu lögð niður og í stað þeirra kæmu fjórar skrifstofur um verkefni sviðanna. Þær eru skrifstofa umbóta og þróunar, skrifstofa þjónustu, skrifstofa mannauðs og kjaramála og skrifstofa áhættu- og fjárstýringar.
Í tilkynningu um ráðningarnar segir að ný skrifstofa umbóta og þróunar muni leika lykilhlutverk í framþróun bæjarfélagsins. Efla eigi þjónustu við Kópavogsbúa með aukinni stafrænni þjónustu.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi segir að bæjaryfirvöld vilji stíga markviss skref í stafrænni þróun á næstunni. Þau skref muni birtast í innleiðingu á stafrænum kerfum í stað úreltra pappírsferla, í bættri þjónustu sem spari bæjarbúum sporin og spari stjórnsýslunni kostnað sem nýtist þá í enn meiri þjónustugæði til íbúa. „Mikilvægt er að nýta sér kosti gervigreindar, til að mynda í upplýsingagjöf til íbúa og tryggja að þeim sé svarað hratt og örugglega,“ segir Ásdís.
Vill kanna hug bæjarbúa
Hún segist jafnframt sjá tækifæri til að nýta tæknilausnir til að hlusta reglulega á hvað bæjarbúum liggur á hjarta. „Ég hef talað fyrir því að gera reglulega púlskannanir meðal íbúa. Mikilvægt er fyrir okkur sem stýrum svona stóru sveitarfélagi að eiga gott samtal við okkar íbúa og fá frá þeim leiðsögn um hvað við getum gert betur.“ hdm@mbl.is