Nokkrar breytingar verða á starfsstöðvum í Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar. Starfsstöðvunum fjölgar lítið eitt en hins vegar verður ekki starfsemi við alla þá skóla sem notast hefur verið við síðustu ár

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Nokkrar breytingar verða á starfsstöðvum í Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar. Starfsstöðvunum fjölgar lítið eitt en hins vegar verður ekki starfsemi við alla þá skóla sem notast hefur verið við síðustu ár.

Ástæðu þessa má að hluta til rekja til þess að vinnuskúrar sem notaðir hafa verið um langt árabil eru ekki lengur nothæfir. „Undanfarin ár höfum við ekki fengið inni í öllum grunnskólum og höfum þá notað þessa skúra á skólalóðunum í staðinn. Því miður eru þessir skúrar orðnir ónýtir og margir þeirra myglaðir. Okkur finnst líka óboðlegt að geta ekki boðið unglingunum upp á rennandi vatn og aðgang að klósettum nema á kömrum,“ segir Þorvaldur Guðjónsson skólastjóri Vinnuskólans.

Hann segir að þegar fyrir hafi legið að skúrarnir væru ekki lengur nothæfir hafi verið leitað til skóla- og frístundasviðs borgarinnar um að fá að nýta húsnæði í skólum. „Og nú erum við inni í fleiri grunnskólum en nokkru sinni áður,“ segir hann. Ekki reyndist unnt að fá afnot af húsnæði alls staðar og ástæður hafi til að mynda verið að framkvæmdir stæðu yfir. Einn af þeim skólum þar sem ekki verður starfsstöð er Austurbæjarskóli og þurfa nemendur þar að fara umtalsvert lengri leið til vinnu en ella. Þorvaldur kveðst skilja vel að ekki séu allir sáttir við þetta en ekki hafi verið hægt að fá húsnæði í skólanum.

Vinnuskólinn ekki lengur á Árbæjarsafni

Auk þessa detta líka út starfsstöðvar Vinnuskólans í Hljómskálagarðinum og á Klambratúni. Segir Þorvaldur að ástæða þess sé breyting á garðyrkjuverkefnum hjá borginni, garðyrkjufræðingar taki við verkefnum þar. Þá verður Vinnuskólinn ekki heldur á Árbæjarsafni eins og verið hefur en í staðinn kemur starfsstöð í Selásskóla.

Skráning stendur nú yfir í Vinnuskólann í sumar. Að sögn Þorvaldar hafa þegar borist um tvö þúsund umsóknir en í fyrra voru um 3.200 ungmenni í skólanum.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon