Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Óvenjulegt morðmál í Ástralíu hefur vakið alþjóðlega athygli en kona er fyrir rétti ákærð fyrir að hafa ráðið fyrrverandi tengdaforeldrum sínum og frænku þeirra bana með því að setja eitraða sveppi í Wellington-steik, sem hún bar á borð fyrir þau.
Konan, Erin Patterson, sem er fimmtug að aldri, hefur neitað sök og verjendur hennar segja að hún hafi sett sveppina í matinn fyrir mistök.
Konan bauð tengdaforeldrunum, frænku þeirra og eiginmanni hennar og fyrrverandi eiginmanni sínum í mat og sagði ástæðuna fyrir matarboðinu vera þá að hún hefði alvarlegar fréttir að færa. Eiginmaðurinn fyrrverandi afþakkaði hins vegar boðið. Konan sagði síðan skyldfólkinu að hún þjáðist af banvænu krabbameini sem síðar kom í ljós að var uppspuni.
Hálfum sólarhring eftir matarboðið veiktust gestirnir og voru fluttir á sjúkrahús þar sem þeir voru greindir með alvarlega eitrun af völdum grænserks, sem er einn eitraðasti sveppur sem til er. Tengdaforeldrarnir og frænkan létust. Eiginmaður frænkunnar lifði eitrunina af en lá í tvo mánuði á sjúkrahúsi.
Erin Patterson sagðist einnig hafa veikst eftir máltíðina og fór á sjúkrahús en neitaði að láta leggja sig inn. Saksóknarar segja að hún hafi ekki greinst með sveppaeitrun.
Fram hefur komið við réttarhöldin að Erin Patterson bar Wellington-steikurnar fram fyrir hvern og einn. Hún snæddi sjálf slíka steik en gestirnir tóku eftir því að diskur hennar var öðruvísi á litinn.
Saksóknarar sögðu við réttarhöldin, að Patterson hefði sagt frá því áður á samfélagsmiðlum að hún ætti tæki til að þurrka sveppi og notaði það mikið. Eftir matarboðið sást hún á eftirlitsmyndavélum henda tækinu í ruslatunnu. Það fannst og á því voru leifar af grænserk og fingraför Patterson. Saksóknarar segja einnig að Patterson hafi upphaflega haldið því fram að hún hefði keypt þurrkaða sveppi í asískri matvörubúð en engar sannanir hafi fundist fyrir því. Einnig sýni staðsetningarforrit í farsíma hennar að hún hafi farið á stað þar sem grænserkur óx í náttúrunni.
Verjendur Patterson segja hins vegar að skýra megi hegðun hennar með því að hún hafi orðið skelfingu lostin eftir að gestir hennar veiktust og brugðist við með vanhugsuðum hætti.
Réttarhöldin fara fram í Morwell, 15 þúsund manna bæ suðaustur af Melbourne. Fjöldi fréttamanna víða að úr heiminum fylgist með réttarhöldunum og komast færri að en vilja en réttarsalurinn tekur aðeins sex áhorfendur. Aðrir fylgjast með réttarhöldunum á skjá í öðru húsi.