Andrea Sigurðardóttir
andrea@mbl.is
Reykjavíkurborg kynnti í gær ársreikning ársins 2024. Rekstur aðalsjóðs reyndist jákvæður um 4,7 milljarða sem er viðsnúningur upp á 9,7 milljarða frá árinu 2023.
Þrátt fyrir jákvæðan viðsnúning blasir við að grunnrekstur borgarinnar er enn ósjálfbær. Ef ekki væri fyrir óreglulega liði á borð við sölu eigna og byggingarrétta, sem samtals nema 12,5 milljörðum, væri niðurstaðan neikvæð um 8,5 milljarða – og það þrátt fyrir að tekjur, einkum skatttekjur, hafi hækkað um 18 milljarða króna milli ára.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri ræddi við Morgunblaðið að loknum kynningarfundi í ráðhúsinu í gær. Hún segir stefnt að sjálfbærum rekstri en að ekki verði skorið niður í þeim efnum.
Ætlar meirihlutinn að grípa til einhverra aðgerða til að treysta sjálfbærni rekstursins, svo sem niðurgreiðslu skulda eða annarrar hagræðingar í rekstri?
„A-hlutinn er nokkuð vel staddur, með lágt skuldahlutfall. Við seldum minna af eignum en var gert ráð fyrir, þannig að eignasala nam lægri upphæð á síðasta ári en gert var ráð fyrir í áætlun. Tekjurnar sem jukust voru fyrst og fremst útsvarið, sem var að hækka,“ segir Heiða.
En þegar reglulegar tekjur og kostnaður er skoðaður blasir við að reksturinn er ekki sjálfbær.
„Það er að sjálfsögðu okkar markmið og við erum að færast nær því. Við getum alveg sagt að við séum að verða sjálfbær. Við erum með ákveðin kennileiti sem við viljum að verði sterkari og við ætlum okkur að ná því á þessu ári,“ segir hún.
Margvíslegar aðgerðir
Hvaða aðgerðir miða að því að ná þessum markmiðum? Eruð þið öðru fremur að treysta á að skatttekjur aukist eða eruð þið raunverulega að gera eitthvað til þess að skera niður?
„Já, við erum í margvíslegum aðgerðum til þess að, ekki skera niður, heldur bara fara betur með. Við höfum lagt mikla áherslu á að markmið okkar er ekki að fækka starfsfólki eða slíkt. Við viljum nýta tíma starfsfólks betur. Okkur er auðvitað að fjölga um tvö prósent á hverju ári og í svona mikilli verðbólgu er mikill þrýstingur á að laun hækki mikið. Við fórum í ákveðnar aðgerðir einmitt til þess að stemma stigu við því, að við gætum sameiginlega með starfsfólki okkar náð niður verðbólgu og vöxtum, og það var frábært að við náðum þeim samningum. Við erum líka að reyna að styrkja og standa með börnunum og barnafjölskyldum án þess að það hafi bein áhrif á verðbólguna.“
Þá segir hún borgina hafa leitað eftir tillögum frá bæði starfsfólki og íbúum um hvernig fara megi betur með tíma starfsfólks og fjármagn.
„Við erum komin með fullt af hugmyndum þar.“
Liggja fyrir töluleg markmið varðandi hvernig ná skuli reglulegum kostnaði niður án eiginlegs niðurskurðar? Til þess að reksturinn verði sjálfbær þurfa annaðhvort reglulegar tekjur, skatttekjur, að aukast eða reglulegur kostnaður að lækka.
„Í samþykktri fjármálastefnu borgarinnar kemur það skýrt fram hvaða mælikvarðar það eru sem við erum að horfa til, og það er auðvitað metnaður okkar að ná þeim mælikvörðum sem við höfum sett okkur.“
Eignasala í stöðugri skoðun
Verður ráðist í frekari eignasölu á yfirstandandi rekstrarári?
„Við erum alltaf að skoða eignasölu. Ef borgin á óþarfar eignir sem gætu nýst öðrum er það sjálfsagt að gera. Við eigum gríðarlegar eignir og það er eitt af því sem mér finnst mikilvægt að árétta, að ef maður tekur saman reikninginn, bæði A- og B-hluta, þá eigum við þúsund milljarða. Þannig að við erum gríðarlega sterkt og eignamikið fyrirtæki, samfélagið Reykjavík, og fólkið getur alveg treyst því. Það er alveg eðlilegt að við séum alltaf að endurskoða hvort við getum losað um eignarhald á einhverju og sérstaklega hvað varðar húsnæði þá höfum við skoðað það mjög beint.“
En félög á borð við Malbikunarstöðina, Ljósleiðarann og fleiri sem eru ekki hluti af kjarnarekstri borgarinnar?
„Ljósleiðarinn er auðvitað hluti af Orkuveitu Reykjavíkur og Malbikunarstöðin er á milli staða, þannig að það hafa ekki verið neinar beinar samþykktir um að selja það.“
Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að fjármagn úr eignasölu verði nýtt?
„Okkar sýn er að geta fjármagnað stærri hluta af fjárfestingunum með fjármagni sem kemur frá rekstri. Það er það sem er mikilvægt. Ekki vegna þess að borgin sé svo skuldsett, heldur vegna þess að það er betri og sjálfbærari rekstur. Við stöndum hins vegar vel, sem er mikilvægt, en markmið okkar er að gera enn betur. Og þau markmið okkar má sjá í gögnunum okkar, í ársreikningnum og þeim skýrslum og skýringum sem koma með ársreikningnum. Við höfum sett okkur skýr töluleg markmið og erum að vinna að því að ná þeim.“
Viðbrögð minnihluta
Grunnþjónustuna í forgang
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir engar vísbendingar um að rekstur borgarinnar sé á réttri leið, þrátt fyrir jákvæða niðurstöðu.
„Hér voru óþarfa verkefni ekki aflögð og ónauðsynlegum stöðugildum ekki fækkað. Engar vísbendingar eru um hagræðingar í rekstri sem leiða til betri rekstrarniðurstöðu. Það eru þvert á móti heimilin í borginni sem hafa greitt upp óráðsíuna,“ segir Hildur um niðurstöðuna í samtali við Morgunblaðið.
„Ég vil sjá jákvæðan viðsnúning í rekstri sem skýrist af aukinni ráðdeild, ekki aukinni skattheimtu.“
Hún kallar eftir sölu eigna, ekki síst dótturfélaga í samkeppnisrekstri. Hún segir heilmikið svigrúm til að ráðast í skattalækkanir en að tækifærin séu vannýtt. Skilgreina þurfi lögbundið hlutverk sveitarfélagsins.
„Við þurfum að einbeita okkur að grunnþjónustunni en skera önnur verkefni niður. Hér þarf að skerpa fókusinn svo koma megi höfuðborginni aftur í forystu,“ segir hún.