Alþjóðlegur gerðardómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Bretar hafi brotið gegn Brexit-samkomulaginu svonefnda, sem gert var þegar Bretar gengu úr Evrópusambandinu (ESB) árið 2020, með því að banna á síðasta ári alla sandsílaveiði í lögsögu sinni í Norðursjó.
Er þetta fyrsti úrskurðurinn af þessu tagi, sem kveðinn er upp í deilum milli Bretlands og ESB vegna Brexit-samningsins og er talinn geta haft fordæmisgildi.
Samkvæmt Brexit-samkomulaginu héldu ESB-ríkin veiðiréttindum sínum í breskri lögsögu í fimm og hálft ár, eða til miðs árs 2026, en eftir það þarf að semja árlega um veiðiheimildirnar.
Veiðar á sandsíli eru einkum stundaðar í Norðursjó, Skagerak og Kattegat, aðallega af dönskum og norskum skipum og er fiskurinn mikilvægt hráefni í fiskimjöls- og lýsisframleiðslu. Veiðarnar í Norðursjó eru stundaðar á svonefndum Doggerbanka og stærstur hluti hans er innan breskrar lögsögu. Evrópusambandið rak málið fyrir hönd Dana, sem hafa til þessa fengið 96% af sandsílakvóta Evrópusambandsins í Norðursjó í sinn hlut.
Eftir Brexit greiddu Danir Bretum fyrir aðgang að sandsílaveiði í breskri lögsögu. En í mars 2024 bönnuðu Bretar alla sandsílaveiði í sinni lögsögu í Norðursjó og byggðu þá ákvörðun á því að sjófuglastofnar, sem hafa sandsíli sem aðalfæðu, ættu undir högg að sækja. Framkvæmdastjórn ESB taldi hins vegar að veiðibann Bretlands byggðist ekki á vísindalegum grunni og sendi Bretum formlega kvörtun.
Málinu var síðan vísað til alþjóðlegs gerðardóms í Haag, sem nú hefur komist að niðurstöðu og segir í úrskurði, sem telur 298 blaðsíður, að Bretar hafi ekki staðið við ákvæði í Brexit-samkomulaginu með því að banna sandsílaveiðarnar. Fyrirskipar dómurinn breskum stjórnvöldum að grípa til viðeigandi ráðstafana til að uppfylla samkomulagið.
Veiddu 118 þúsund tonn
Alls veiddu danskir sjómenn 118 þúsund tonn af sandsíli árið 2023, þar af um 60 þúsund tonn í breskri lögsögu. Tekjur af veiðunum voru áætlaðar um 500 milljónir danskra króna, jafnvirði um 10 milljarða íslenskra króna, og þar af komu um 300 milljóna danskra króna tekjur af veiðum í breskri lögsögu.
Heimkynni sandsílis, sem getur orðið allt að 20 cm langt, eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Íslandi að norðan og vestan og Múrmansk að austan. Það er mikilvæg fæða margra fiska, t.d. þorsks, ýsu, ufsa, lýsu og fleiri tegunda auk þess sem alls konar fuglar, t.d. kría, rita, lundi, teista og svartbakur, éta það með góðri lyst. gummi@mbl.is