Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Athygli vakti í fyrra þegar nokkrir frímúrarabræður fóru í heljarinnar reisu um Evrópu á bifhjólum og söfnuðu fé til styrktar Reykjadal í Mosfellsbæ. Hópurinn er ekki af baki dottinn og fram undan er önnur reisa um Evrópu til styrktar Reykjadal enda þarf mannskapurinn hvort sem er að sækja bifhjólin til Spánar.
Hjólin voru skilin eftir í geymslu í bænum San Pedro Del Pinatar, ekki ýkja langt frá Santa Rosalia í Murcia en þar lauk ferðinni í október í fyrra. Kalla má þessar slóðir Íslendingaslóðir því þúsundir Íslendinga halda til nærri borgunum Murcia og Alicante á Spáni.
„Nú förum við út til að ná í hjólin og koma þeim heim. Það hefði verið allt of mikið ferðalag fyrir okkur að fara svo gott sem hringinn í kringum Evrópu,“ segir Arnbjörn Arason, formaður Íslandsdeildar Widows Sons-samtakanna [Synir ekkjunnar].
Þegar komið verður út eiga Íslendingarnir heimboð í frímúrarastúku á svæðinu, sem Íslendingar sækja í, áður en lagt verður af stað heim til Íslands. Til stendur að hjóla upp austurströnd Spánar, ferðast um suðurströnd Frakklands til Ítalíu, þaðan til Slóveníu og Króatíu. Frá Króatíu verður farið til Ungverjalands, Austurríkis, Slóvakíu og Tékklands. Því næst liggur leiðin til Póllands, Þýskalands og að síðustu er það Danmörk. Ferðin hefst 13. maí og lýkur 29. maí í Hirtshals þar sem hjólin verða sett í skip og þau flutt til Íslands.
Söfnuðu 2,6 milljónum
„Eftir að við fórum að styrkja Reykjadal komum við okkur saman um að leggja okkar af mörkum til að Reykjadalur kæmist á gott ról í góðu samstarfi við aðra. Við eigum fund með þeim á næstunni og þá langar mig að ræða við þau um frekara samstarf. Eins og í fyrra þá hjólum við um Evrópu til að safna áheitum fyrir Reykjadal en viðtökurnar í fyrra voru framar vonum. Við höfðum leyft okkur að vonast eftir því að við myndum safna um það bil milljón og það var ánægjulegt að geta afhent forsvarsmönnum Reykjadals 2,6 milljónir í vetur,“ segir Arnbjörn, sem reyndar er iðulega kallaður Addi.
„Viðtökurnar í fyrra reyndust okkur mikil hvatning til að halda þessu áfram. Auk þess má nefna að við vorum með vöfflukaffi og myndasýningu í Frímúraraheimilinu við Ljósatröð í Hafnarfirði þegar við afhentum styrkinn. Salurinn fylltist og það var alveg frábært að sjá. Ferðalagið tekur um tvær vikur en vegalengdin er tæpir fimm þúsund kílómetrar, sem er styttra en síðasta haust. Í fyrra fórum við niður með vesturströndinni en förum austur fyrir í þetta skiptið,“ segir Addi en sömu einstaklingar verða í ferðinni og fóru í fyrra.
Reykjadalur í Mosfellsbæ rekur sumarbúðir fyrir fötluð börn og ungmenni. Widows Sons eru alþjóðleg mótorhjólagóðgerðarsamtök frímúrarabræðra sem einbeita sér að fjáröflun fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu og þar eru börn í forgangi.