Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
„Það er búið að tefja málið alveg gríðarlega, bara til þess að þjóna Reykjavíkurborg, til að skoða jarðgöng.“
Þetta sagði Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra á Alþingi sl. miðvikudag, þegar hann svaraði óundirbúinni fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni um Sundabraut og samgöngur.
Og ráðherrann bætti við:
„Ég fór fram á það strax í upphafi að það væri ekki hægt að Reykjavíkurborg væri að tefja þetta mat lengur. Þeir eru búnir að finna þarna fuglabjörg og guð má vita hvað ekki sem þarf að skoða aftur og aftur. Alltaf kemur upp eitthvað meira að skoða og nánast er verið að reyna að finna þann síðasta sem er á móti þessu til að fá að tala við hann og skoða eitthvað hvað það varðar.“
Þurft hefur leitarhunda
„Þetta eru skrýtnir tímar og það eru ný vinnubrögð hjá nýrri ríkisstjórn og ánægjulegt að sjá hæstvirtan ráðherra, það hefur þurft svolítið að leita að þeim. Maður sér jafnvel líka háttvirta þingmenn stjórnarliðsins en það hefur nú þurft leitarhunda til að finna þá hér í þinghúsinu þegar við erum að ræða mál sem þeir koma hér með.“ Með þessum orðum hóf Guðlaugur Þór mál sitt og bætti við:
„Síðan eru önnur sem malla án umræðu og ég er hér að tala um mál sem varða alla, sérstaklega fólk á höfuðborgarsvæðinu, og kosta hundruð milljarða. Ég er að tala um Sundabraut og Sundagöng og ég er að tala um Betri samgöngur. Við sjáum í fjölmiðlum að þessu vindur áfram en við ræðum þetta ekki hér.“
Eykur ekki flæði bíla
Og Guðlaugur nefnir að gallinn t.d. við núverandi hugmyndir og það sem er verið að skoða varðandi Sundabraut sé að það eykur ekki umferðarflæði af því að við endastöð sé ekki gert ráð fyrir aukinni umferðarrýmd. Flæðið færi í gegnum hverfi borgarinnar, fjórar akreinar á tveimur stöðum.
„Það verður inni í bíllausu hverfi Samfylkingarinnar og Viðreisnar sem er að vísu ekki bíllausara en svo að það er ekkert strætóskýli þar þannig að menn þurfa að fá leigubíl á kostnað borgarinnar til að komast í strætóskýli og þetta er ekki grín. Þetta kallar á flutning Samskipa með tilheyrandi kostnaði,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í fyrirspurnarræðu sinni.
„Ég er að bíða eftir umhverfisskýrslu varðandi framkvæmdina og þá þarf að taka ákvörðun um hvort það verði brú eða göng yfir sundin,“ sagði Eyjólfur í svari sínu.
„Þegar ég fékk lyklana hjá fyrrverandi innviðaráðherra þá sagði hann við mig að þetta yrði ákvörðun mín í apríl, að skýrslan kæmi í apríl. Ég er enn að bíða eftir skýrslunni. Ég er búinn að krefjast þess að fá hana núna í maí, tilbúna, svo það verði hægt að taka ákvörðun um þetta mikilvæga mál og halda málinu áfram í farvegi svo hefja megi framkvæmdir, vonandi á næsta ári en alls ekki seinna en í byrjun 2027.“
Þegar skýrslan lægi fyrir kvaðst Eyjólfur meira en lítið tilbúinn til þess að taka umræðuna í þingsal og í samfélaginu um þessa mikilvægu framkvæmd.
Ótrúlegar tafir
„Þessar tafir á málinu eru algerlega ótrúlegar. Ég bara skora á ykkur að kynna ykkur þetta, að þessi áætlanagerð skyldi hafa verið svikin aftur, aftur og aftur. Það átti að koma umhverfisskýrsla um áramótin 2023/2024, þetta átti að koma í október, þetta átti að koma í apríl. Saga þessa máls er alveg með ólíkindum. Maður verður bara reiður þegar maður er að fjalla um þetta. Svona má ekki vinna í framtíðinni,“ sagði ráðherrann.
Eyjólfur ítrekar að Sundabraut sé þjóðhagslega hagkvæmasta framkvæmd Íslandssögunnar samkvæmt fyrirliggjandi skýrslu. Fyrir liggi samningur milli fyrrverandi innviðaráðherra og Reykjavíkurborgar um að framkvæmdir hefjist ekki síðar en á næsta ári.