1. maí Jafnréttismál voru áberandi.
1. maí Jafnréttismál voru áberandi. — Morgunblaðið/Karítas
„Við erum hér að vísa í tölur frá OECD um greiningu atvinnutekna, en síðustu tölur sem við erum með eru frá árinu 2022, en þá var Ísland fyrir neðan meðaltal OECD-landanna í atvinnutekjum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB í samtali við Morgunblaðið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Við erum hér að vísa í tölur frá OECD um greiningu atvinnutekna, en síðustu tölur sem við erum með eru frá árinu 2022, en þá var Ísland fyrir neðan meðaltal OECD-landanna í atvinnutekjum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB í samtali við Morgunblaðið.

Hún var spurð hvað lægi að baki yfirlýsingu í ávarpi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík sem birtist 1. maí sl. þar sem segir að hér á landi ríki meira launamisrétti á milli kynja en í samanburðarlöndunum. Með atvinnutekjum er átt við heildartekjur fólks á vinnumarkaði.

Sonja Ýr bendir einnig á að skv. tölum frá Hagstofunni hafi munurinn á atvinnutekjum karla og kvenna aukist frá árinu 2023 þegar hann nam 21% en hafi á síðasta ári verið 21,9%.

Hún segir að íslenskar og norrænar rannsóknir sýni að kynskiptur vinnumarkaður sé ein helsta skýringin á launamun kynjanna. Konur og karlar gegni ólíkum störfum á vinnumarkaði og kynjaskipting milli starfsgreina er áberandi.

„Ástæða þess að við horfum til þessa er sú að konur eru frekar í hlutastarfi vegna ábyrgðar á fjölskyldu sem hefði þ.a.l. áhrif á launamuninn líka. Rannsóknir Hagstofunnar sýna að meginástæðan fyrir launamun kynjanna er hversu kynskiptur vinnumarkaðurinn er,“ segir Sonja Ýr og vísar til þess að konur séu frekar í störfum þar sem laun eru lægri, svo sem umönnunarstörfum og störfum í heilbrigðis- og menntakerfum. Laun karla séu þó alltaf hærri en kvenna, óháð því hvort þeir starfi á almennum eða opinberum vinnumarkaði.

Hún bendir á að í rannsókn Hagstofu Íslands frá árinu 2021 um launamun karla og kvenna komi fram að launamunurinn fyrirfinnist, óháð því hvort litið er til atvinnutekna, óleiðrétts eða leiðrétts launamunar. Í ávarpi fulltrúaráðsins segir einnig að bakslags gæti í jafnréttismálum og segir Sonja Ýr að birtingarmynd þess sé fjölþætt.

„Við sjáum að viðhorf eru að breytast og eru að verða neikvæðari í garð jafnréttis. Erlendar rannsóknir sýna þetta og neikvæð umræða um þau mál erlendis hefur áhrif hér á landi,“ segir hún. Einnig verði að horfa til þess hvernig fólk upplifi slíka hluti í sínu daglega lífi.

„Ofbeldi gegn konum er ekki minna hér á landi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við,“ segir Sonja Ýr.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson