Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Samtals hafa selst 38 íbúðir á átta þéttingarreitum í miðborg Reykjavíkur síðan í byrjun ársins.
Þetta má lesa úr grafinu hér fyrir ofan en ýmist var rætt við söluaðila eða stuðst við upplýsingar af söluvefjum verkefnanna.
Sjö íbúðir seldust í Borgartúni 24 og eru þar með 13 íbúðir óseldar í húsinu sem kom á markað haustið 2023.
Á Snorrabraut 62 hefur engin íbúð selst enda voru íbúðir teknar úr sölu og þær settar í langtímaleigu. Fjöldi seldra íbúða var ofmetinn í fyrri umfjöllun Morgunblaðsins og eru lesendur beðnir velvirðingar á því. Stuðst var við söluvef hússins.
Sömu sögu er að segja af Skipholti 1 en þar gengur salan rólega.
Fjórar íbúðir hafa selst í Þverholti 13 í ár og stefnir í að allar íbúðirnar í húsinu, 38 talsins, verði seldar á innan við ári sem telst nokkuð gott miðað við stöðuna á markaðnum.
Sá fyrsti kominn í sölu
Salan í Hlíðarhorni á Hlíðarenda gengur rólega. Íbúðirnar komu í sölu síðasta haust. Þær munu koma á markað í áföngum en í þeim fyrsta, Valshlíð 3, eru til sölu 33 íbúðir.
Fjórar íbúðir hafa selst á Heklureit í ár og eru því 37 íbúðir seldar.
Örn V. Kjartansson, framkvæmdastjóri félagsins sem byggir Heklureit, segir sýningaríbúðir að verða tilbúnar og því geti áhugasamir farið að bóka einkaskoðun.
Seldar hafa verið 15 íbúðir í Vesturvin í ár og eru þar með 80 íbúðir seldar af 145. Það flækir aðeins þá samantekt að nokkrar íbúðir í Vesturvin III komu í forsölu sem bætast við seldar íbúðir í Vesturvin I og II. Langflestar hinna seldu íbúða eru í Vesturvin I og II.
Skammt frá Vesturvin við Ánanaust er búið að selja sjö íbúðir á Grandatorgi frá áramótum og 32 alls, að félagslegum íbúðum meðtöldum.
Samanlagt hafa því selst 38 íbúðir á þessum átta reitum, sem áður segir, sem samsvarar því að 7% íbúðanna á reitunum hafi selst í ár. Með því hafa selst 259 af 517 íbúðum á þessum reitum eða hér um bil önnur hver íbúð. Allir þessir átta reitir eiga það sameiginlegt að vera þéttingarreitir í borginni. Á sjö þessara reita þurfti að rífa eldri byggingar en Skipholt 1 felur í sér endurgerð á eldra húsi sem byggt var við.
Henta fyrir bíllausan lífsstíl
Þá eiga nokkrir reitanna það sameiginlegt að henta fólki sem ástundar bíllausan lífsstíl. Engin sérmerkt bílastæði fylgja Snorrabraut 62 eða Skipholti 1 og innan við eitt stæði á hverja íbúð fylgir í Borgartúni 24 og í Þverholti 13. Um hálft stæði fylgir hverri íbúð í Hlíðarhorni en þau þarf að leigja. Þá verður hægt að leigja bílastæði í nýju bílastæðahúsi gegnt Hlíðarhorni. Á Heklureit verða um 0,75 stæði á íbúð þegar hann er fullbyggður með um 450 íbúðum. Á Grandatorgi er hægt að kaupa stæði en annars þarf að leigja þau. Loks fylgja einkastæði með stærri íbúðum í Vesturvin og svo er hægt að leigja stæði.
Fasteignasali sem Morgunblaðið ræddi við vonar að Seðlabankinn lækki vexti í þessum mánuði. Þá sé áhyggjuefni hvað bankarnir séu stífir að lána til fyrstu kaupenda.