Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Guðni Á. Haraldsson hrl. segir eftirliti byggingarfulltrúa sveitarfélaga með nýbyggingum vera mjög ábótavant. Á því þurfi að ráða bót enda geti slælegt eftirlit haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Guðni var lögmaður í máli sem sagt var frá í Morgunblaðinu í gær. Nánar tiltekið var sagt frá dómsmáli vegna ágalla á fjölbýlishúsinu við Löngulínu 2-6 í Sjálandshverfinu í Garðabæ. En í því máli (nr. 798/2017) dæmdi Hæstiréttur Arion banka til að greiða húsfélaginu um 300 milljónir í bætur en rífa þurfti alla klæðningu af blokkinni og klæða upp á nýtt fyrir um 460 milljónir króna.
Setti sína menn í stjórn
Guðni segist aðspurður hafa fengið Arion banka dæmdan á grundvelli skuggastjórnunar.
„Bankinn yfirtók bygginguna eftir hrun og tók yfir byggingarfélagið. Setti sína menn þar í stjórn. Byggði eins ódýrt og hann gat. Seldi íbúðirnar og greiddi inn á lán félagsins við bankann og setti svo byggingarfélagið í gjaldþrot. Svo þegar þessir miklu gallar komu í ljós sagði bankinn: „Því miður. Félagið er gjaldþrota.“ En hann komst ekki upp með það,“ segir hann
Guðni segir það hárrétt sem einn íbúa í Löngulínu sagði í samtali við Morgunblaðið, að endurskoða þurfi tryggingar vegna nýbygginga.
„Þá er eftirlit byggingarfulltrúa sveitarfélaga í molum,“ segir Guðni. „Þau setja enga fjármuni í eftirlitið. Byggingarstjórar og meistarar á húsunum eiga að bera mikla ábyrgð en hún er í raun mjög takmörkuð. Ég hef verið með mörg svona mál og í þeim kemur oft upp sú staðreynd að meistarar húsanna hafa í raun aldrei komið nálægt byggingu þeirra.“
Eiga að fylgjast með
Hverjir eru ekki að standa sig?
„Byggingarfulltrúar sveitarfélaganna eiga að fylgjast með að úttektirnar fari fram. Þeir eiga að sjá til þess að það fari fram hinar og þessar úttektir og þeir eiga ekki að gefa út lokavottorð fyrr en ljóst er að allar úttektir hafi farið fram og fólk á ekki að flytja inn í húsin áður en það fer fram öryggis- og áfangaúttekt. Embætti byggingarfulltrúa Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar hafa ekki haft mannskap í að sinna þessu. Þess vegna hefur eftirlitið verið afskaplega slælegt. Það sannaðist í Löngulínumálinu. Þá afsökuðu menn sig með vísan til byggingarhraða, að það væru svo margar eignir byggðar að þeir kæmust ekki yfir að skoða þær allar. Það er hins vegar ekki vandamál neytenda sem telja sig vera að kaupa nýbyggðar eignir sem hafa farið í gegnum allar áfanga- og öryggisúttektir. Áfangaúttektirnar eru allar skilgreindar í byggingarreglugerð sem er frá 2012 en þar kemur fram hvaða áfangaúttektir þurfa að fara fram á hverjum tíma við byggingu húsa. Þessu er mjög ábótavant,“ segir Guðni.
Algjörlega út í hött
„Tryggingar byggingarstjóranna eru svo annað mál og að það sé ein trygging fyrir eitt fjöleignarhús. Það er algjörlega út í hött og það er búið að benda viðkomandi ráðuneytum margoft á það en þau gera ekkert í þessu. Þetta þarf að lagfæra.
Það eru skráðir hinir ýmsu byggingarstjórar en með nýjum mannvirkjalögum frá árinu 2012 var skerpt á ábyrgð byggingarstjóra. Það á að vera byggingarstjóri fyrir hvert hús og hann á að sjá til þess að meistarar geri úttektir á hinum og þessum þáttum. Það eru vanhöld á að þetta gangi eftir. Því miður.
Mæta ekki í úttektir
Það eru skráðir hinir ýmsu meistarar á húsin sem koma aldrei nálægt byggingu þeirra, mæta meira að segja ekki í úttektirnar. Láta ekki sjá sig og þá fer engin úttekt fram. Þetta er því mjög losaralegt. Það var verið að færa ábyrgð úr höndum byggingarfulltrúa yfir á byggingarstjóra. Það kerfi hefur ekki reynst vel. Því miður,“ segir Guðni að lokum.