Úthlutað var í vikunni úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2025. Fram hefur komið að hæsti styrkurinn, 90 milljónir, fer í áframhaldandi uppbyggingu við Stuðlagil á Austurlandi.
Næsthæsti styrkurinn, 60 milljónir króna, fer til uppbyggingar á betri aðstöðu við Staðarbjargavík á Hofsósi í Skagafirði. Markmið þess verkefnis er að bæta aðgengi ferðamanna að mikilli náttúrufegurð og jarðmyndunum en stuðlabergið í víkinni hefur laðað til sín fjölda ferðamanna. Skammt frá henni er vinsæl sundlaug á Hofsósi.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra úthlutaði styrkjunum. Alls hlutu 28 verkefni styrk úr sjóðnum. Heildarúthlutun var 553,2 milljónir króna og dreifast verkefnin um land allt.
Að venju snúa verkefnin að fjölbreyttri uppbyggingu, m.a. á sviði öryggismála, náttúruverndar, innviðauppbyggingar o.fl.