Sigurður Helgason, fv. upplýsingafulltrúi Umferðarráðs, lést á Landspítalanum í Fossvogi miðvikudaginn 30. apríl síðastliðinn, á 71. aldursári.
Sigurður fæddist í Reykjavík 1. október 1954. Foreldrar hans voru Valný Bárðardóttir húsmóðir og Helgi Sæmundsson, ritstjóri og rithöfundur. Sigurður var næstyngstur í hópi níu bræðra og ólst upp í Vesturbænum.
Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1975, stundaði nám í bókasafnsfræði og sagnfræði við HÍ. Starfaði sem kennari og bókavörður í Fellaskóla 1977 til 1985, var frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV 1985 og 1986. Framkvæmdastjóri Fararheillar '87 sem var samvinnuverkefni bifreiðatryggingafélaganna árið 1987. Frá árinu 1988 starfaði Sigurður hjá Umferðarráði, síðar Umferðarstofu, lengst af sem upplýsingafulltrúi. Þar var hann meðal annars virkur í Útvarpi Umferðarráðs og tíður gestur í viðtækjum landsmanna.
Sigurður sinnti alls kyns verkefnum meðfram störfum sínum, kenndi t.d. á umferðaröryggisnámskeiðum hjá Sjóvá um árabil og skrifaði bókmenntagagnrýni um barnabækur í DV um nokkurra ára skeið.
Hann var virkur í skrifum og þýðingum, þýddi nokkrar bækur og skrifaði einnig bækur, m.a. ævisögu Gunnars Huseby og nú síðast bókina Vesturbærinn: húsin, fólkið, sögurnar.
Sigurður var jafnframt virkur í alls kyns félagsstarfi, fyrst í nemendafélögum í menntaskóla, síðar í stjórn foreldrafélags Langholtsskóla, sóknarnefnd Áskirkju og Hinu íslenska glæpafélagi. Eins tók hann virkan þátt í norrænu samstarfi tengdu starfinu og myndaði góð tengsl. Hann var mikill áhugamaður um íþróttir og grjótharður KR-ingur alla tíð þó að búseta í mörg ár nærri félagssvæði Þróttar við Sæviðarsund hafi gert smá Þróttara úr honum.
Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Anna Ólafsdóttir geislafræðingur. Þau eignuðust þrjú börn; Stefán Ólaf, Ölmu og Sigríði. Barnabörnin eru sex talsins.