Skóflustunga Inga Sæland félagsmálaráðherra ýtti verki úr vör og naut þar góðrar aðstoðar. Allt er að gerast.
Skóflustunga Inga Sæland félagsmálaráðherra ýtti verki úr vör og naut þar góðrar aðstoðar. Allt er að gerast. — Ljósmynd/Kjartan Örn Júlíusson
Dvalarrýmum á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði fjölgar um 27 þegar lokið verður þeim framkvæmdum sem þar hófust í gær. Þá var tekin fyrsta skóflustungan að nýju húsi, en það gerðu Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra, Birna Sif Atladóttir…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Dvalarrýmum á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði fjölgar um 27 þegar lokið verður þeim framkvæmdum sem þar hófust í gær. Þá var tekin fyrsta skóflustungan að nýju húsi, en það gerðu Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra, Birna Sif Atladóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar í Ási og Grétar Aðalsteinsson heimilismaður í nýja húsinu sem mun rúma 44 íbúa.

Grundarheimilin byggja hjúkrunarheimilið og leigja ríkinu með leigusamningi til 20 ára. Í dag eiga alls 111 manns heimili sitt á Ási en verða senn 138.

Húsið nýja á Ási verður myndað af fjórum 11 manna einingum og er skjólsæll garður á milli þeirra. Aðalinngangur er í miðju og tengjast einingarnar fjórar um gang að norðanverðu þar sem að auki verða ýmis stoð- og þjónusturými. Alls er húsið 2.860 fermetrar að flatarmáli og heildarkostnaður við verkið nemur um 2,8 milljörðum króna. Grund leggur til lóðina undir húsið og kostar niðurrif þeirra mannvirkja sem þarna eru fyrir. Heildarkostnaður við verkefni þetta er áætlaður 2,8 milljarðar króna.

Aðalhönnuður byggingarinnar nýju er Sigbjörn Kjartansson hjá Glámu Kím. Verkfræðihönnun er í höndum Ferils verkfræðistofu, DSP Ísland sér um hljóðhönnun og Örugg um brunavarnir og öryggismál. Centra fyrirtækjaráðgjöf sá um að útvega fjármagn til verksins. Bygging hússins er í höndum Húsvirkis og Jarðbrú sér um jarðvinnu.

„Við munum halda áfram á sömu braut á landsvísu eins og ríkisstjórnin hefur lofað,“ sagði Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra við þetta tilefni í gær. Vísaði þar til fyrirætlana stjórnvalda um fjölgun hjúkrunarrúma og bætta þjónustu við eldra fólk.

„Þessi framkvæmd er mjög mikilvæg til að koma til móts við breyttar og auknar þarfir og kröfur þeirra sem dvelja nú og munu dvelja framvegis á hjúkrunarheimilum landsins. Það veitir sko ekki af því að fjölga hjúkrunarrýmum,“ segir Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundarheimilanna.

Langur aðdragandi

Gísli Páll gat þess við athöfnina á Ási í gær að verkefnið hefði átt sér sjö ára aðdraganda, en það var 2018 sem óskað var eftir því við þáverandi heilbrigðisráðherra að Ás mætti fá 18 rýma hjúkrunarheimili í Hveragerði. Illa gekk að hins vegar að fá verktaka til þess að reisa heimili fyrir þá fjárhæð sem ríkið ætlaði í verkið. Meðal annars var efnt til tveggja útboða sem enginn tók þátt í.

Það var svo í árslok sem hreyfing komst á málið með þeirri hugmynd að ríkið fæli Grund að reisa hjúkrunarheimili sem ríkið síðan leigi. Og þessi leið var valin – og er útfærslan sú að fjármálaráðuneytið fól Framkvæmdasýslu ríkisins að gera samninga um leigu á byggingunni – sem öllu mun breyta á Ási.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson