Úr bæjarlífinu
Margrét Þóra Þórsdóttir
Akureyri
Þeim hluta Hafnarstrætis á Akureyri sem gengur undir nafninu göngugatan hefur nú verið lokað fyrir umferð vélknúinna ökutækja. Lokunartíminn er óvenjulangur í ár, fimm mánuðir. Þessi hluti götunnar verður lokaður fyrir umferð alla daga, allan sólarhringinn og stendur lokunartímabilið yfir frá 1. maí til 30. september. Það verður því ekki fyrr en haustið boðar komu sína sem aftur verður hægt að aka um göngugötuna.
Meirihluti bæjarbúa er hlynntur því að loka götunni yfir sumarið. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri gerði netkönnun fyrir Akureyrarbæ í kjölfar lokunarinnar í fyrra. Niðurstaðan reyndist sú að ríflega 76% svarenda voru ánægð með að gangandi vegfarendur hefðu þennan hluta Hafnarstrætis út af fyrir sig og án umferðar. Ökutækjum er heimilt að koma með aðföng til rekstraraðila á tímabilinu frá klukkan 7 til 10 á morgnana. Aðgengi fyrir P-merkta bíla og ökutæki viðbragðsaðila verður ávallt tryggt.
Miklar umræður urðu um göngugötuna á liðnum vetri en ástand hennar er vægast sagt bágborið. Ráðast þarf í umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir til að koma henni í betra horf. Frumáætlun um kostnað við viðgerðir hljóðar upp á 250 milljónir króna. „Yfirborð göngugötunnar er orðið það slæmt að ekki er lengur hægt að viðhalda umferð á henni án umfangsmikilla viðgerða,“ segir í minnisblaði um götuna. Einnig kemur þar fram að snjóbræðslukerfið sé farið að skemmast þar sem hellur hafa þynnst og losnað, bæði vegna mikillar umferðar og aldurs.
Hafist var handa við endurgerð götunnar í gær, föstudag, en fyrirhugað er að vinna þetta umfangsmikla verk í áföngum. Þannig verður einnig komist hjá því að valda rekstraraðilum sem og vegfarendum óþægindum. Vonandi tekst vel til með endurbætur á götunni og í kjölfarið að gæða miðbæinn nýju lífi. Mörgum þykir miðbærinn mega muna sinn fífil fegurri og hafa amast við því að starfsemi sem áður var á miðbæjarsvæðinu hafi horfið á brott, heilsugæsla og vínbúð sem dæmi. Og að skortur sé á matvöruverslun á miðbæjarsvæðinu.
Óskir fólks sem vill sjá meira líf í miðbænum gætu ræst fyrr en varir. Til stendur að færa húsið við Strandgötu 1, kallað í daglegu tali áður fyrr Landsbankahúsið. Það stendur virðulegt við Ráðhústorg og veitir skjól inn á torgið. Húsið er í eigu Kaldbaks og þar innandyra er rekin öflug nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi auk þess sem Kaldbakur hefur þar aðstöðu.
Áform eru uppi um að stækka húsið og byggja á upphaflegum hugmyndum arkitekta hússins, en þær fela í sér stækkun til austurs og norðurs. Erindi þar um hefur verið sent skipulagsráði og óskað eftir samstarfi við Akureyrarbæ um fyrirhugaðar framkvæmdir og lagt til að samhliða verði farið í endurhönnun á Ráðhústorgi til að heildarsvipur svæðisins verði samræmdur. Skipulagsráð hefur tekið jákvætt í erindið.
Eldra fólk þarf eins og aðrir að bregða sér í miðbæinn af og til og sinna þar erindum. Gjaldskylda er á bílastæðum og var hún til umræðu á fundi öldungaráðs Akureyrar nýverið. Fram kom á þeim fundi að talið væri að yfir 20% þeirra sem eru 67 ára og eldri væru ekki með snjallsíma. „Sum þeirra sem eiga slíka síma nota þá aðeins sem síma, en eru ekki með nein öpp í símunum. Þessum einstaklingum er gert ókleift að leggja bifreið í miðbænum vegna gjaldtöku þar,“ segir í bókun fundarins.
Öldungaráðið vekur athygli á því að ekki sé löglegt að mismuna fólki eftir tæknikunnáttu. Sú hugmynd hafi því komið til tals að þeim eldri borgurum sem ekki eru með snjallsíma með appi verði gert kleift að leggja í bílastæðin án gjaldtöku. Verið er að skoða á hvern hátt best verði að útfæra málið, en eldri borgarar leggja traust sitt á að Akureyrarbær finni lausn á málinu og minnir ráðið á að kosningar séu á næsta ári.