Kynningarfundur Byggingaraðilinn bauð upp á hamborgara á kynningarfundi, sagði að húsið yrði til fyrirmyndar og ekki þyrfti að hafa áhyggjur.
Kynningarfundur Byggingaraðilinn bauð upp á hamborgara á kynningarfundi, sagði að húsið yrði til fyrirmyndar og ekki þyrfti að hafa áhyggjur. — Morgunblaðið/Eggert
„Í dag er ég með óbragð í munni út af hamborgaranum sem ég þáði af þessum byggingaraðila, sem samhliða hamborgaranum mataði okkur á takmörkuðum og villandi upplýsingum með þeim fyrirheitum að við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur af…

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Í dag er ég með óbragð í munni út af hamborgaranum sem ég þáði af þessum byggingaraðila, sem samhliða hamborgaranum mataði okkur á takmörkuðum og villandi upplýsingum með þeim fyrirheitum að við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur af byggingunni sem stóð til að byggja,“ segir Ásgeir Þór Árnason, íbúi í Árskógum 7, um kynningarfund byggingaraðilans við Álfabakka 2a með íbúum.

Það var árið 2022 að téður byggingaraðili sýndi áhuga því að hitta íbúana í Árskógum 5-7 og kynna áform sín um uppbyggingu á fjórum lóðum; Álfabakka 2 a, b, c og d, og var efnt til grillveislu af því tilefni.

„Á þeim tíma fannst okkur það ekkert óeðlilegt. Hann mætti hingað með bíl frá Hamborgarafabrikkunni og við tókum á móti honum. Á meðan við mauluðum hamborgarann sýndi hann okkur teikningar en það var aldrei sýnd afstöðumynd á milli húsanna í Árskógum og Álfabakka.“

Ásgeir segir að fram hafi komið á fundinum að íbúar þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur af birtu eða neinu slíku og framkvæmdin yrði alveg til fyrirmyndar.

„Þarna borðuðum við þennan hamborgara í þeirri góðu trú að hér væri góður byggingaraðili sem vildi hafa nágranna sína með sér. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem við fengum einhverja hugmynd um hvað væri fram undan og við alls ekki upplýst um að verið væri að breyta fjórum blokkum í þetta gímald sem nú er risið.“

Ásgeir segir að á þessum tíma hafi íbúar ekki vitað að búið væri að sameina þessar fjórar lóðir í eina. Smjörþefinn hafi þau síðan fengið af þessum framkvæmdum þegar jarðvinnan á lóðinni byrjaði.

„Hér var safnað upp himinháum haug af jarðefni sem var nær jafnhátt Árskógum 7 og ryki og drullu spúð yfir okkur svo ekki var hægt að hafa glugga opna. Fyrst lofaði byggingaraðilinn að hreinsa húsið hátt og lágt en þegar hann var spurður hvort það stæðist ekki hreytti hann því út úr sér að hann ætlaði sko ekki að standa við það því íbúarnir væru búnir að eyðileggja svo margt fyrir sér.“

Höf.: Óskar Bergsson