Dýpkun Flutningapramminn Pétur mikli og dýpkunarpramminn Reynir að störfum í Njarðvíkurhöfn þar sem unnið er að dýpkun hafnarinnar.
Dýpkun Flutningapramminn Pétur mikli og dýpkunarpramminn Reynir að störfum í Njarðvíkurhöfn þar sem unnið er að dýpkun hafnarinnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Dýpkunarframkvæmdir og bygging varnargarðs í Njarðvíkum hefur staðið yfir síðastliðið ár. Verkið er unnið af tveimur prömmum, flutningapramma og dýpkunarpramma. Flutningapramminn Pétur mikli siglir á losunarstað og losar efnið sem dýpkunarpramminn Reynir grefur upp

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Dýpkunarframkvæmdir og bygging varnargarðs í Njarðvíkum hefur staðið yfir síðastliðið ár. Verkið er unnið af tveimur prömmum, flutningapramma og dýpkunarpramma. Flutningapramminn Pétur mikli siglir á losunarstað og losar efnið sem dýpkunarpramminn Reynir grefur upp. Dýpkunarpramminn setur sig niður og festir sig á meðan grafið er eða rippað. Þegar botninn er fastur fyrir er rippað, en ef það er laust efni á botninum er nóg að moka.

Breytir allri aðstöðu í Njarðvík

Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri Reykjaneshafna segir að með þessari aðferð sé hægt að dýpka höfnina um allt að 9 metra. Ákveðið var að dýpka í 8 metra miðað við núllpunkt. Á háflóði geta bæst við 4,5 metrar sem þó hefur ekki áhrif á getu tækjanna til að halda dýptinni sem um er beðið.

Verkið var boðið út í ársbyrjun 2024, það hófst fyrir ári og stóð yfir fram í júlí, hófst svo aftur í byrjun árs og mun ljúka nú í maí. Framkvæmdatíminn er 6-8 mánuðir. Kostnaður við verkið verður á bilinu 400-500 milljónir. Hagtak er verktaki og sá eini á Íslandi sem býður þessa tegund af dýpkun, með gröfupramma.

„Efnið sem er tekið upp er nýtt í skjólgarð fyrir hafnarmannvirkin sem lokar betur af innsiglinguna og myndar varnargarð vegna endurkasts af öldu sem kemur inn á þetta svæði. Þetta gerir það að verkum að hafnaraðstaðan við Njarðvíkurhöfn gjörbreytist frá því sem hún hefur verið. Höfnin verður svokölluð lífhöfn þar sem ölduhæðin fer ekki yfir 40 cm í verstu veðrum.“

Halldór segir að þegar gerð var úttekt á hafnarmannvirkjum 2017 og mótuð framtíðarsýn fyrir hafnarsvæðið hafi verið ákveðið að setja upp þennan skjólgarð.

„Á þeim tíma var skipasmíðastöð Njarðvíkur með áform um að stækka hjá sér og setja upp yfirbyggða þurrkví sem þarf að vera á skjólsælu svæði þar sem vinna við skipin væri óháð veðri. Þessi áform eru í bið vegna hás fjármagnskostnaðar en aðstaðan fyrir þessa starfsemi verður til eftir að við höfum lokið framkvæmdinni.“

Landhelgisgæsla á hrakhólum

Njarðvíkurhöfn hefur kannað afstöðu Landhelgisgæslunnar til þess að framtíðaraðstaða geti orðið á þessu svæði, þar sem hún er á hrakhólum í Reykjavíkurhöfn. Í maí 2023 var undirrituð viljayfirlýsing við dómsmálaráðuneytið og Landhelgisgæsluna um uppbyggingu á þessari aðstöðu. Samkomulag um greiðslufyrirkomulag er ekki komið í gegn, sem gerði það að verkum að dýpkunarframkvæmdirnar urðu minni en stefnt var að. Sá verkþáttur er því í bið.

Hvað áttu við með því að segja að Landhelgisgæslan sé á hrakhólum í Reykjavík?

„Þeir hafa ekki möguleika á að byggja sér fasta aðstöðu og eru færðir til eftir hendinni. Ef það á að byggja upp framtíðaraðstöðu fyrir öfluga Landhelgisgæslu þarf að vera eitthvað fast í hendi. Hins vegar ef þú spyrðir Faxaflóahafnir hvort þeir vildu losna við Gæsluna myndu þeir örugglega svara því neitandi.“

Varnargarðar sem voru byggðir 2004 sköpuðu óhagstæðar aðstæður við höfnina.

„Þá voru settir skjólgarðar innan við höfnina til að verja land á Fitjum. Þessir skjólgarðar gerðu það að verkum að aldan, sem rann áður inn á Fitjar og dó þar út, endurkastast með þeim afleiðingum að hún eyðilagði viðleguna utan á hafnarmannvirkjunum í Njarðvík. Þessi grjótgarður sem nú er unnið að kemur mitt á milli tveggja skjólgarða út frá skipasmíðastöðinni og drepur niður endurkastið af þessum innri varnargarði. Efnið sem kemur úr dýpkuninni er nýtt í varnargarðinn og síðan verður garðinum lokað með grjóti. Þetta efni er það sem kallað er kjarni sem síðan er varinn með grjóti,“ segir Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri.

Ekki samkomulag um greiðslu

Í áðurnefndri viljayfirlýsingu dómsmálaráðherra og Landhelgisgæslunnar um uppbyggingu í Njarðvíkurhöfn var stefnt að því að framkvæmdum yrði lokið á næsta ári, á 100 ára afmæli Landhelgisgæslunnar. Þrátt fyrir vilja til yfirlýsinga hefur ekki náðst samkomulag um greiðslufyrirkomulag og er umfang verksins því minna en stefnt var að.

Höf.: Óskar Bergsson