Slóvakía Viktor Guðmundsson, eða Doctor Victor, fer yfir undirstöðuatriðin í dj-fræðunum á lokaviðburði Studio25: Island í höfuðstöðvum slóvakíska ríkisfjölmiðilsins í Bratislava.
Slóvakía Viktor Guðmundsson, eða Doctor Victor, fer yfir undirstöðuatriðin í dj-fræðunum á lokaviðburði Studio25: Island í höfuðstöðvum slóvakíska ríkisfjölmiðilsins í Bratislava.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland var í aðalhlutverki í slóvakíska ríkissjónvarpinu á páskadag þegar sýnd var tæplega hálftíma löng heimildarmynd um ferðalag ungra nemenda frá Slóvakíu um landið. Nemendurnir sjálfir komu að gerð myndarinnar, bæði við tökur og efnistök, en verkefnið bar yfirskriftina Studio 25: Island

Hallur Már Hallsson

hallurmar@mbl.is

Ísland var í aðalhlutverki í slóvakíska ríkissjónvarpinu á páskadag þegar sýnd var tæplega hálftíma löng heimildarmynd um ferðalag ungra nemenda frá Slóvakíu um landið. Nemendurnir sjálfir komu að gerð myndarinnar, bæði við tökur og efnistök, en verkefnið bar yfirskriftina Studio 25: Island.

Einn aðstandenda verkefnisins er Kristína Domanová kennari sem dvaldi fyrst á Íslandi sem au pair fyrir nokkrum árum. Hún segir viðtökurnar hafa verið frábærar:

„Þetta tókst einstaklega vel. Um páskana er mikil messuhátíð í Slóvakíu, og á sama tíma og myndin var sýnd var kaþólsk messa í sjónvarpinu. Þrátt fyrir það náðum við tæplega 50.000 áhorfum á netinu. Við höfum líka fengið ótrúlega jákvæð viðbrögð,“ segir Kristina hróðug.

Í myndinni, sem í lauslegri þýðingu kallast Ísland – land elda, íss og sagna, má sjá nokkur helstu kennileiti landsins auk viðtala við heimamenn. Þar ber hæst viðtal við forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, sem hópnum þótti magnað að fá áheyrn hjá.

Einnig er rætt við fólk með slóvakískar rætur eða tengsl við Ísland. Einn þeirra sem á skemmtilega innkomu er læknirinn og plötusnúðurinn Viktor Guðmundsson, sem stundaði læknanám í Slóvakíu á sínum tíma og hóf þar jafnframt feril sinn sem tónlistarmaður.

Af hverju Ísland?

Kristína segir valið á Íslandi sem viðfangsefni hafa legið beint við.

„Við völdum Ísland sem hvetjandi fyrirmynd. Hér sjáum við svo margt sem er öðrum til fyrirmyndar, fólk sem gefst ekki upp, jafnvel þótt náttúran sé erfið. Hugmyndin um þetta reddast er til að mynda afar hvetjandi fyrir Slóvaka. Þá lítum við einnig til jafnréttis kynjanna á Íslandi, sem við eigum enn langt í land með heima fyrir. Auk þess sem íslensk tónlist og bókmenntir njóta mikilla vinsælda í Slóvakíu – listamenn á borð við Ólaf Arnalds, Sigur Rós og rithöfundar eins og Jón Kalman Stefánsson og Gunnar Gunnarsson.“

Hópurinn tók hús víða um landið og meðal annars í Hádegismóum, þar sem krakkarnir fylgdust með upptökum á þættinum Spursmál. Þau kynntu sér einnig hæfileikakeppnina Skrekk og heimsóttu Eddu – miðstöð íslenskra fræða þar sem Slóvakinn Branislav Bedi er verkefnisstjóri á alþjóðasviði. Fræðimaðurinn útbjó einmitt sérstaka kennslubók fyrir íslenskunám á slóvakísku í tengslum við verkefnið.

Lokahnykkurinn var svo málstofa sem haldin var í höfuðstöðvum ríkissjónvarpsins í Slóvakíu um miðjan apríl. Þar fluttu fyrirlesarar erindi um eitt og annað íslenskt og nemendurnir kynntu verkefni sín. Stutt kvikmyndaverkefni þar sem fléttuðust saman litlar sögur, frásagnir og viðtöl úr íslensku umhverfi; Norræna húsinu og Fellaskóla, svo dæmi séu tekin.

Viðmælendur voru af ýmsum toga, íslensk börn og unglingar en síðast en ekki síst Davíð Tencer, kaþólski biskupinn hér á landi, sem er slóvakískrar ættar sem og fleiri einstaklingar sem sýndu fram á áhugaverðar tengingar milli Íslands og Slóvakíu.

Tengsl sem vaxa áfram

Ferðalag nemanna um landið hefur því að einhverju leyti dregið fram hversu mikil tengsl þjóðanna eru við nánari athugun. Í gegnum sögur, viðtöl og persónulegar upplifanir hefur það vakið athygli á fjölbreyttum tengingum sem þegar eru fyrir hendi, hvort sem litið er til læknanema, listamanna eða einstaklinga sem hafa fundið sér annað heimili handan landamæra.

Höf.: Hallur Már Hallsson