Ráðherra Landsréttur leysti hættulegan erlendan brotamann úr haldi.
Ráðherra Landsréttur leysti hættulegan erlendan brotamann úr haldi. — Morgunblaðið/Karítas
Dómsmálaráðherra telur að nýlegt mál alsírsks afbrotamanns, sem Landsréttur leysti úr haldi, sýni fram á nauðsyn þess að komið verði upp brottfararstöð fyrir þá, sem bíða brottvísunar úr landi. „Niðurstaða Landsréttar sýnist mér byggjast á því …

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Dómsmálaráðherra telur að nýlegt mál alsírsks afbrotamanns, sem Landsréttur leysti úr haldi, sýni fram á nauðsyn þess að komið verði upp brottfararstöð fyrir þá, sem bíða brottvísunar úr landi.

„Niðurstaða Landsréttar sýnist mér byggjast á því að það séu einhver efri mörk á því hversu lengi má halda mönnum í gæsluvarðhaldi. Hversu lengi megi halda honum án þess að brotið sé á réttindum hans,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.

Ráðherra tók fram að svörin væru almenn, hún væri ekki inni í efnisatriðum einstrakra mála og hefði ekki afskipti af þeim.

Hættulegur brotamaður laus

Landsréttur felldi á mánudag úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir afbrotamanni frá Alsír, þrátt fyrir að lögreglan á Suðurnesjum teldi hann ógn við allsherjarreglu, öryggi ríkisins og almannahagsmuni.

Dómstólinn byggði á því að skv. útlendingalögum mætti ekki beita gæsluvarðhaldi lengur en tvær vikur í senn og ekki oftar en þrisvar. Maðurinn gengur nú laus.

Maðurinn kom hingað frá Portúgal í lok september 2024, framvísaði fölsuðum skilríkjum og var handtekinn þegar upp komst. Kom þá í ljós að hann var í tíu ára endurkomubanni á Schengen-svæðið. Hann hefur átta sinnum verið sakfelldur á Schengen-svæðinu, fyrir fíkniefnalagabrot, þjófnaði, alvarlegar líkamsárásir og innbrot.

Brottfararstöð vantar

„En það er umhugsunarvert af hverju stjórnvöld hafa – til langs tíma – beinlínis valið sér að vera ekki með brottfararstöð, sem kæmi að gagni í máli sem þessu.“

Dómsmálaráðherra hefur boðað frumvarp um slíka brottfararstöð í haust, en þar yrði maður sem þessi vistaður þar til hann færi af landinu.

„Það væri ljóslega mun vægara úrræði að vista manninn á brottfararstöð, en næði fram sömu samfélagslegu hagsmunum af því að slíkur maður gangi ekki laus.“

En nú gengur hann laus. Og ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hvernig hann framfleyti sér …

„Ég sé að dómstóllinn gerir athugasemdir við það hversu langan tíma málið hefur tekið. Mér finnst þetta því fyrst og fremst undirstrika nauðsyn þess að við komum upp brottfararmiðstöð fyrir það fólk, sem hér á ekki að vera.“

Höf.: Andrés Magnússon