Flutningskerfi Viðvarandi takmarkanir í flutningskerfi raforku hafa valdið þjóðarbúinu milljarðatjóni ár hvert.
Flutningskerfi Viðvarandi takmarkanir í flutningskerfi raforku hafa valdið þjóðarbúinu milljarðatjóni ár hvert. — Ljósmynd/Landsnet
Landsnet áætlar að allt að 70% líkur séu á orkuskorti hér á landi árið 2029, en á næsta ári metur fyrirtækið að líkurnar séu 14%. Í versta tilfelli geti skorturinn numið allt að 800 gígavattstundum árið 2029

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Landsnet áætlar að allt að 70% líkur séu á orkuskorti hér á landi árið 2029, en á næsta ári metur fyrirtækið að líkurnar séu 14%. Í versta tilfelli geti skorturinn numið allt að 800 gígavattstundum árið 2029.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Landsnets sem kemur út árlega undir yfirskriftinni Kerfisjöfnuður. Kemur þar fram að raforkukerfið standi frammi fyrir vaxandi áskorunum á næstu árum, þar sem eftirspurn eftir raforku hafi vaxið hraðar en framboð undanfarin misseri. Verði ekki ráðist í nýjar framkvæmdir til orkuöflunar og til styrktar flutningskerfinu muni hætta á skerðingum og orkuskorti aukast, m.a. vegna ónógrar aflgetu, langtímaorkuskorts af völdum lélegra vatnsára og takmarkana í flutningskerfinu. Segir Landsnet að orkuskortur sé líklegastur yfir háveturinn, frá október til apríl ár hvert.

Telur Landsnet að skýrslan sýni að verði ekki gripið til aðgerða muni ástandið versna hratt. Það sem áður hafi verið möguleg sviðsmynd sé nú að þróast í líklega atburðarás.

Í skýrslunni er varpað ljósi á stöðu og þróun framboðs og eftirspurnar raforku næstu fimm árin, en hún er sögð lykilverkfæri til að greina líklegar áskoranir í raforkukerfinu og styður jafnframt við ákvarðanatöku um hvernig tryggja megi afhendingaröryggi, auka nýtingu flutningskerfisins og stuðla að orkuskiptum.

Flöskuhálsar í flutningskerfi

Þar kemur m.a. fram að undanfarin ár hafi þróun eftirspurnar farið fram úr uppbyggingu innviða og nýrrar orkuvinnslu sem valdi aukinni spennu í kerfinu, einkum þegar við bætast náttúrulegar sveiflur í vatnsbúskap. Það gerir kerfið viðkvæmt, einkum yfir vetrartímann þegar notkunin er mest.

Flöskuhálsar í flutningskerfinu hafi einnig áhrif á hvernig nýjar orkueiningar nýtist og hvort rafmagn kemst leiðar sinnar þangað sem þörfin er mest. Þótt til séu hagkvæmir virkjunarkostir á landsbyggðinni ráði skortur á tengingum og dreifingu oft úrslitum, bæði fyrir afhendingu og orkunýtingu.

Stærstu hindrunina í flutningskerfi raforku er að finna í tengingunni á milli Norður- og Suðurlands og ráðast þurfi í fjölþættar aðgerðir til að draga úr hættu á orkuskorti og skömmtun raforku og er tengingin á milli fyrrgreindra landshluta lykilþáttur í því. Eru þar sérstaklega nefndar til sögunnar Holtavörðuheiðarlína og Blöndulína 3. Þá þurfi að auka framleiðslu raforku, bæði með nýjum virkjunum sem og uppfærslu virkjana sem þegar eru starfræktar.

Þær takmarkanir sem hafa verið viðvarandi í flutningskerfinu undanfarin ár eru taldar hafa kostað þjóðarbúið 11-15 milljarða króna á ári.

Landsnet metur ástandið þannig að orkuskipti og efnahagsvöxtur muni tefjast vegna orkuskorts og tækifæri til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar glatist þar sem raforkuöryggi verði ekki tryggt.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson