Kári Stefánsson
Kári Stefánsson
Kára Stefánssyni hefur verið sagt upp sem forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Í samtali við Morgunblaðið segist hann hafa verið boðaður á fund og fengið þær upplýsingar að hann „væri rekinn“

Kára Stefánssyni hefur verið sagt upp sem forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Í samtali við Morgunblaðið segist hann hafa verið boðaður á fund og fengið þær upplýsingar að hann „væri rekinn“.

„Síðan var ég skilinn eftir inni í herbergi, stjórnendur fyrirtækisins hoppuðu upp í einkaþotu til að vera komnir til Íslands á undan mér,“ lýsir fyrrverandi forstjórinn sem var í Kaliforníu þegar Morgunblaðið náði tali af honum.

Kári stofnaði Íslenska erfðagreiningu (ÍE) árið 1996 en árið 2012 keypti bandaríska lyfjafyrirtækið Amgen það. Hyggst lyfjafyrirtækið nú fella ÍE inn í Amgen, að sögn Kára, sem er mótfallinn þessum fyrirætlunum. Hann segir þó ekkert óeðlilegt við að svona stór fyrirtæki taki þá ákvörðun.

Í stað Kára munu dr. Unnur Þorsteinsdóttir og Patrick Sulem saman leiða starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar á Íslandi, en þau hafa bæði starfað hjá fyrirtækinu um langt árabil.

Unnur hefur starfað hjá ÍE frá árinu 2000 en hún starfaði sem framkvæmdastjóri erfðarannsókna hjá fyrirtækinu. Hún er prófessor við læknadeild og starfaði sem forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands 2022-2024.

Patrick Sulem er læknir (M.D.) og hefur hann starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2002. Áður en hann tók við stöðu framkvæmdastjóra leiddi hann klínísk raðgreiningarverkefni (e. clinical sequencing) hjá ÍE. Hann er sérhæfður í faraldsfræði og lýðheilsu og hefur verið þátttakandi í viðamiklum erfðafræðirannsóknum ólíkra sjúkdóma í gegnum störf sín hjá fyrirtækinu.

Í viðtali við áramótablað Morgunblaðsins, Tímamót, í desember sagðist Kári harðákveðinn í að setjast ekki í helgan stein.

„Nei, ég er margoft búinn að segja vinum mínum í Ameríku I’m not going to retire, I’m going to die. Ég get ekki ímyndað mér neitt skemmtilegra en það sem ég er að fást við. Ég er að vinna með ævintýralegu gáfuðu, hæfileikamiklu og sniðugu fólki af alls konar gerðum og stærðum,“ sagði Kári í desember.