Niðurstöður úr stöðumati sem lagt var fyrir nemendur í 7. bekk í Breiðholtsskóla draga upp dökka mynd af kennslunni sem árgangurinn hefur fengið. Frammistaða nemendanna í stærðfræði er mun lakari en frammistaða jafnaldra þeirra var á landsvísu í samræmdu prófunum árið 2020

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Niðurstöður úr stöðumati sem lagt var fyrir nemendur í 7. bekk í Breiðholtsskóla draga upp dökka mynd af kennslunni sem árgangurinn hefur fengið. Frammistaða nemendanna í stærðfræði er mun lakari en frammistaða jafnaldra þeirra var á landsvísu í samræmdu prófunum árið 2020. Árangur þeirra í íslensku er enn slakari.

Hermann Austmar, faðir stúlku sem var í árganginum þar til nýlega, óskaði eftir að námsmatið yrði lagt fyrir hópinn þar sem hann taldi öruggt að nemendurnir hefðu ekki fengið viðunandi kennslu vegna ofbeldisvanda sem hefur þrifist í skólanum og Morgunblaðið hefur greint frá með ítarlegum hætti. Í kjölfarið ákváðu Reykjavíkurborg og mennta- og barnamálaráðuneytið að verða við þeirri beiðni sem hluta af úttekt á stöðu Breiðholtsskóla, en til að meta stöðu nemenda voru samræmd könnunarpróf frá árunum 2020 og 2019 notuð.

Hermann segir niðurstöðurnar úr námsmatinu því miður ekki koma sér á óvart. Hann furðar sig aftur á móti á því að skólaeinkunnir barnanna gefi allt aðra mynd af færni þeirra í þessum kjarnafögum. Hann grunar að skólinn gefi nemendum mun hærri einkunnir en innistæða sé fyrir og þar með komi þessi alvarlegi vandi ekki fram á einkunnaspjöldum barnanna. Þannig sé foreldrum haldið í myrkrinu.

Hermann segir óljóst bæði hvort og hvernig skólayfirvöld ætli að bæta nemendum upp það nám sem þau hafi farið á mis við á grunnskólagöngu sinni.

„Það hefur enginn úr skólanum komið til okkar í foreldrahópnum og sagt: „Hópurinn stendur mjög illa.“ Það hefur enginn gert það að fyrra bragði. Ég er búinn að þurfa að toga þetta upp úr þeim.“ » 6

Höf.: Hólmfríður María Ragnhildardóttir