— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fyrrverandi hafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum hefur stefnt fyrirtækinu fyrir héraðsdóm ásamt tryggingafélaginu VÍS og krefst bóta vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir þegar dráttarbáturinn Jötunn, sem hann var skipverji á, lenti í árekstri við olíuskip í höfninni í Helguvík

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fyrrverandi hafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum hefur stefnt fyrirtækinu fyrir héraðsdóm ásamt tryggingafélaginu VÍS og krefst bóta vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir þegar dráttarbáturinn Jötunn, sem hann var skipverji á, lenti í árekstri við olíuskip í höfninni í Helguvík. Við áreksturinn skaddaðist maðurinn á úlnlið og var örorka hans metin 10% af þeim sökum. Hann hefur einungis fengið greiddan lítinn hluta þeirra skaðabóta sem hann telur réttmætar, en Faxaflóahafnir og tryggingafélagið hafna því og neita að semja um málið.

Athygli vekur að í stefnunni kemur fram að slysið, sem varð um miðjan febrúar 2020, var ekki tilkynnt til Rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem skylt hafi verið að gera, fyrr en hálfu þriðja ári síðar og var slysið því ekki rannsakað. Telur skipverjinn að slysið megi rekja til yfirsjóna skipstjóra dráttarbátsins við siglingu hans sem og þess að Faxaflóahafnir hafi vanrækt að tryggja öruggan vinnustað og viðhlítandi verkskipulag.

Skipverjinn sem hér um ræðir er Jakob J. Jónsson, sem hóf störf hjá Faxaflóahöfnum í mars 2018 og var valinn úr hópi 24 umsækjenda.

Í samtali við Morgunblaðið segir hann að sér hafi fljótlega orðið ljóst að starfsemin hafi verið í lausu lofti og þjálfunarmál í ólestri.

Setti stólinn fyrir dyrnar

„Engin skipulögð þjálfun var fyrir nýja hafnsögumenn eins og tíðkast erlendis, en eldri lóðsarnir voru hjálpsamir og hjálpuðu mér að komast inn í starfið,“ segir Jakob sem segir þó að þessi mál hafi skánað í kjölfar þess að Samgöngustofa setti Faxaflóahöfnum stólinn fyrir dyrnar og skikkaði fyrirtækið til námskeiðahalds fyrir hafnsögumenn.

Jakob, sem útskrifaðist frá varðskipadeild Stýrimannaskólans 1994, hefur víðtæka reynslu af sjómennsku eftir 13 ára starf hjá Landhelgisgæslunni, fjögurra ára starf á kaupskipum og fimm ár á farþegaskipum. Áður en hann kom til starfa hjá Faxaflóahöfnum var hann skipstjóri á köfunarskipi í Mexíkóflóa í áratug.

Segir hann að yfirhafnsögumaður Faxaflóahafna hafi gert lítið úr starfsreynslu sinni, sem þó sé sjálfur mun reynsluminni á sviði siglinga.

„En maður vandist þessum vinnubrögðum og allt gekk vel þar til ég lenti í vinnuslysi þann 16. febrúar 2020, þegar dráttarbát var siglt á fullri ferð inn í síðu olíuskips. Ég slasaðist við það á úlnlið og var frá í nokkurn tíma, en sneri svo aftur til starfa en var alltaf með kvalir í úlnliðnum,“ segir Jakob sem metinn var með 10% örorku í kjölfarið. Ekki bætti úr skák að hann lenti í bílslysi 2022 og við skoðun í kjölfar þess kom í ljós að úlnliðsmeiðslin voru mun alvarlegri en talið hafði verið.

Samskipti til verri vegar

Samskiptin við yfirhafnsögumanninn hafi síðan færst mjög til verri vegar eftir að Jakob benti á að hugmyndir sem yfirhafnsögumaðurinn kynnti þáverandi hafnarstjóra, um tillögur sem hann kvað sínar um breytingar á vaktafyrirkomulagi, væru ekki nýjar af nálinni eins og hann hefði þó viljað vera láta, heldur hefði þeim áður verið hafnað. Segir Jakob að yfirhafnsögumaður hafi reiðst og sakað sig um ósannindi sem ekki hafi verið á rökum reist.

Í framhaldinu hafi trúnaðarmaður starfsmanna Faxaflóahafna útbúið skjal til að mótmæla þessum hugmyndum, sem allir starfsmenn hafnarþjónustunnar hafi ritað nafn sitt undir, utan einn. En þar með hafi Jakob verið fallinn í ónáð hjá yfirhafnsögumanninum.

Birtingarmynd þess hafi m.a. verið sú að honum hafi verið falin verkefni sem hann gat ekki sinnt sökum úlnliðsmeiðslanna sem áður er um getið. Hafi hann því óskað eftir tilfærslu í starfi sem við var orðið og hann færður yfir á hafnarvogina, en um leið verið heitið því af starfsmannastjóra að hann myndi halda óbreyttum launum. Segir Jakob að hið sama hafi formanni Félags skipstjórnarmanna verið tjáð. Við það hafi þó ekki verið staðið. Þetta segir hann að hafi kostað launalækkun sem numið hafi hundruðum þúsunda króna á mánuði.

Þá segir Jakob að yfirhafnsögumaður hafi gefið fyrirmæli um að Jakob ætti, þrátt fyrir það líkamstjón sem hann hafði orðið fyrir, að sinna erfiðisstarfi eins og að binda skip á meðan sá sem með honum vann á hafnarvoginni, og var heill heilsu, hafi örsjaldan verið beðinn um það.

Að endingu segist Jakob hafa gefist upp á framkomunni við sig og hætt störfum hjá Faxaflóahöfnum.

Segir hann að eftirmaður sinn í starfinu á hafnarvoginni, sem einnig hafði verið skipstjóri á dráttarbátum, hafi haldið launum sínum sem slíkur eftir tilfærsluna, en þess naut Jakob ekki.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson