Klettaskóli Helga segir miður að Klettaskóli geti ekki tekið við fleiri nemendum og vill að byggður verði annar sambærilegur sérskóli.
Klettaskóli Helga segir miður að Klettaskóli geti ekki tekið við fleiri nemendum og vill að byggður verði annar sambærilegur sérskóli. — Ljósmynd/Reykjavíkurborg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helga Þórðardóttir, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar og oddviti Flokks fólksins, segir mikilvægt að hlustað sé á ákall foreldra barna með sérþarfir um byggingu annars sérskóla. „Klettaskóli er frábær en því miður er hann bara …

Magnea Marín Halldórsdóttir

magnea@mbl.is

Helga Þórðardóttir, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar og oddviti Flokks fólksins, segir mikilvægt að hlustað sé á ákall foreldra barna með sérþarfir um byggingu annars sérskóla.

„Klettaskóli er frábær en því miður er hann bara sprunginn,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.

Skortur á rými í skólanum

Morgunblaðið greindi frá því fyrir helgi að aðeins 14 nýir nemendur hefðu komist að í Klettaskóla, sérskóla á grunnskólastigi í Reykjavík sem þjónar öllu landinu, þegar nemar voru teknir inn í skólann.

Alls var sótt um skólavist fyrir 53 nemendur. Af þeim uppfylltu 42 þau skilyrði sem skólinn setur fyrir inntöku nýrra nemenda en aðeins 14 þeirra voru teknir inn í skólann.

Þannig var 28 nemendum synjað um skólavist vegna skorts á rými.

Gagnast nemendum vel

Helga starfaði áður sem kennari á Barnaspítala Hringsins. Við störf sín á spítalanum segist hún hafa fundið fyrir mikilli ánægju meðal nemenda og foreldra þeirra með Klettaskóla og það skólastarf sem þar fer fram.

Það er mat Helgu að mikilvægt sé að stjórnvöld hlusti á fólkið í landinu og hægt sé að bjóða foreldrum barna með sérþarfir þann valmöguleika að senda börnin sín í sérskóla.

„Það er það sem fólkið vill og hefur gagnast nemendum gríðarlega vel,“ segir hún og bætir við að sjálf hafi hún lengi viljað að byggður yrði annar sambærilegur skóli til að mæta þörfum þessa hóps.

„Þar sem ég hef starfað á Barnaspítalanum og við þau störf kynnst foreldrum sem hafa sent börnin sín í Klettaskóla veit ég að það er unnið alveg gríðarlega gott starf í skólanum og að foreldrar sækja í að senda börnin sín í slíkan sérskóla,“ segir Helga.

Klettaskóli sé ekki einungis ætlaður Reykvíkingum heldur öllum landsmönnum.

„Klettaskóli er fyrir allt landið, þess vegna finnst mér ríkið þurfa að koma að þessu máli. Þetta er samvinnuverkefni fleiri aðila en bara Reykjavíkurborgar,“ segir hún.

Ræddi við innviðaráðherra

Aðspurð segir Helga málið vera í vinnslu hjá skóla- og frístundaráði en hún vonist til þess að það verði einnig rætt í ríkisstjórn. „Ég er alla vega byrjuð að tala fyrir því að þetta verði skoðað,“ segir Helga. Hún hafi rætt við innviðaráðherra, Eyjólf Ármannsson, um málið fyrir helgi. Helga skýrði ekki hvers vegna hún ræddi málið við innviðaráðherra sem fer ekki með málefni grunnskóla.

Helga segir það mjög bagalegt að fjöldi barna hafi ekki aðgang að sérskóla vegna skorts á rými og viðeigandi úrræðum.

„Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við hefðum átt að bregðast miklu fyrr við þessu ákalli. Ég held að það færi bara vel á því að byggja annan skóla,“ segir hún.

Spurð hvort ráðstafanir verði gerðar í almennum skólum til að mæta betur þörfum nemenda með sérþarfir segist Helga ekki geta tjáð sig um það fyrr en eftir að málið hefur verið tekið fyrir á fundi skóla- og frístundaráðs.

„En auðvitað verður að gera það á meðan við bregðumst ekki betur við þessari þörf.“

Höf.: Magnea Marín Halldórsdóttir