Anna Vilhjálmsdóttir söngkona lést á Hrafnistu í Hafnarfirði miðvikudaginn 23. apríl, 79 ára að aldri.
Anna fæddist í Reykjavík 14. september 1945 og ólst upp fyrstu ár ævi sinnar á Lindargötu. Foreldrar hennar voru Sveinjóna Vigfúsdóttir hárgreiðslumeistari og Vilhjálmur Hans Alfreð Schröder framreiðslumaður. Anna var næstelst í hópi sex systkina og eftirlifandi úr systkinahópnum eru tvö.
Anna hóf söngferil sinn aðeins sextán ára gömul, með J.E. kvintettinum árið 1961, og söng í kjölfarið með fjölda hljómsveita. Hún vakti snemma athygli með laginu „Sjö litlar mýs“ sem hún söng með Ómari Ragnarssyni árið 1963. Þá sló hún í gegn með Hljómsveit Svavars Gests og lögum eins og „Ef þú giftist“ sem hún flutti ásamt Berta Möller. Anna söng einnig með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar og átti þar eftirminnileg lög ásamt Vilhjálmi Vilhjálmssyni, svo sem „Það er bara þú“. Árið 1969 stofnaði hún eigin hljómsveit, sem síðar gekk undir nafninu Experiment, og starfaði hún þá m.a. á Keflavíkurflugvelli. Þar kynntist hún bandarískum manni og fluttist til Bandaríkjanna þar sem hún söng áfram um tíma.
Við heimkomu á síðari hluta áttunda áratugarins tók hún aftur virkan þátt í tónlistarlífi, m.a. með sveitum eins og Thaliu og Galabandinu. Hún rak veitingastaðinn Næturgalann í Kópavogi og kom reglulega fram sem gestasöngvari á tónleikum og sýningum.
Árið 1991 kom út sólóplatan Frá mér til þín, þar sem lagið „Fráskilin að vestan“ vakti sérstaka athygli.
Anna skilur eftir sig tvær dætur, Hrefnu Guðrúnu og Önnu Magneu Harðardætur, sem hún eignaðist með Herði Haraldssyni sem lést árið 2020. Einnig skilur hún eftir sig sex barnabörn og fjögur barnabarnabörn. Anna greindist með lungnaþembu fyrir rúmum áratug og síðustu fimm árin dvaldi hún á Hrafnistu.