Kaupmenn „Mig hafði lengi dreymt um að setja upp nytjavörumarkað úti á landi,“ segir Inga Margrét í viðtalinu. Edda Heiða er til vinstri á myndinni.
Kaupmenn „Mig hafði lengi dreymt um að setja upp nytjavörumarkað úti á landi,“ segir Inga Margrét í viðtalinu. Edda Heiða er til vinstri á myndinni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hljómplötur, hnífapör, hækjur, leirtau, leikföng, gerviblóm, sokkaplögg, bækur, kúrekahattar og jólaskraut. Listinn gæti verið enn lengri þegar stiklað er á stóru um allt sem fæst í Dísubúð í Búðardal

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hljómplötur, hnífapör, hækjur, leirtau, leikföng, gerviblóm, sokkaplögg, bækur, kúrekahattar og jólaskraut. Listinn gæti verið enn lengri þegar stiklað er á stóru um allt sem fæst í Dísubúð í Búðardal. Þetta er nytjavörumarkaður og hringrásarhagkerfið í hnotskurn. „Fólk setur ekkert fyrir sig að kaupa notað og slíkt nýtur raunar meiri vinsælda, samanber þau sjónarmið í umhverfismálum sem eru ofarlega á baugi,“ segir Inga Margrét Guðmundsdóttir kaupmaður.

Systurnar Inga Margrét og Edda Heiða Guðmundsdóttir standa saman að rekstri Dísubúðar. Inga hefur lengi stundað verslunarrekstur, meðal annars í Reykjavík, en annars eru þær systurnar frá Hvammstanga þar sem Edda býr.

Viðskiptavinir víða að úr heiminum

„Ég var lengi með kvenfataverslunina Meyjarnar í Austurveri í Reykjavík og er raunar enn, þótt nú séu þetta bara tilfallandi markaðsdagar sem ég stend fyrir eins og nú á Hólmavík,“ segir Inga Margrét og heldur áfram:

„Kaupmannsblóðið er í æðunum og mig hafði lengi dreymt um að setja upp nytjavörumarkað úti á landi. Fyrir nokkrum árum var ég svo á ferðinni hér í Búðardal og sá þar að hér, við þjóðveginn í gegn um bæinn, var laust verslunarrými sem hægt var að fá leigt. Við systurnar slógum því til og settum hér upp þessa verslun; rekstur sem hefur gengið ljómandi vel. Viðskiptavinirnir eru fólk víða að af landinu og svo ferðamenn víða að úr heiminum. Eftir þau fimm ár sem við höfum verið með þennan rekstur liggja hér orðið fyrir þrjár þéttskrifaðar gestabækur, sem eru miklar heimildir.“

Gera eitthvað skemmtilegt fyrir samfélagið

Mikið af því sem fæst í Dísukoti kemur frá fólki sem er að minnka við sig, flytja eða taka til í lífinu ef svo má að orði komast. Stundum eru þar til dæmis tekin inn stór dánarbú, þar sem oft má finna gersemar.

„Svo höfum við líka keypt hingað inn vörur til endursölu, til dæmis ýmsan borðbúnað frá antiksölum í Danmörku. Hér er satt að segja höndlað með allt mögulegt í búð sem við systur settum upp bæði til að skapa okkur vinnu og gera eitthvað skemmtilegt fyrir samfélagið. Fólkið í Dölum og allir hinir hafa tekið okkur vel og við hlökkum til sumarsins, þegar ferðamannatraffíkin hefst fyrir alvöru,“ segir Inga Margrét.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson