Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Umræða um frjálsa fjölmiðla er orðin að einhvers konar olnbogabarni í íslenskri stjórnmálaumræðu. Við höfum margoft heyrt stjórnmálamenn tala um mikilvægi frjálsra fjölmiðla og það er búið að skipa nefndir og skrifa skýrslur um það hvernig hægt er…

Umræða um frjálsa fjölmiðla er orðin að einhvers konar olnbogabarni í íslenskri stjórnmálaumræðu. Við höfum margoft heyrt stjórnmálamenn tala um mikilvægi frjálsra fjölmiðla og það er búið að skipa nefndir og skrifa skýrslur um það hvernig hægt er að tryggja sjálfstæði þeirra og rekstrargrundvöll – samt hafa menn aldrei tekið á vandanum með raunsæjum hætti.

Fjölmiðlar eru hornsteinn lýðræðis. Þeir gegna mikilvægu aðhaldshlutverki gagnvart stjórnvöldum og eiga að stuðla að upplýstri, opinni og fjölbreyttri umræðu í lifandi samfélagi. Um þetta erum við flest sammála.

Staðreyndin er aftur á móti sú að uppbygging fjölmiðlamarkaðarins hér á landi ógnar þessu grundvallarhlutverki fjölmiðlanna. Í stað þess að horfast í augu við rót vandans – alvarlega skekkta samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla – hafa stjórnvöld árum saman reynt að plástra yfir gapandi sár með ríkisstyrkjum til einkarekinna miðla. Vandinn verður þó aldrei leystur með þeim hætti. Til þess að bæta rekstrarumhverfi íslenskra fjölmiðla verður að ræða fílinn í stofunni.

Ríkisútvarpið hefur alla sína tíð notið ákveðinnar sérstöðu á markaði. Samhliða umfangsmiklum beinum fjárveitingum úr ríkissjóði sækir Ríkisútvarpið, sem þó má líkja við hverja aðra ríkisstofnun, sér líka verulegar auglýsingatekjur á markaði. Hér á landi er markaðshlutdeild ríkismiðilsins á fjölmiðlamarkaði nær þriðjungur, næstum þrisvar sinnum meiri en að meðaltali á Norðurlöndunum. Styrkjum til einkarekinna fjölmiðla var komið á fót til að vega upp á móti þessari skekkju. Fáir flokkar hafa viljað fara aðrar leiðir í þessum efnum. Þess í stað hefur ríkið búið til ný vandamál í stað þess að leysa undirliggjandi vanda. Allt á kostnað skattgreiðenda.

Árið 2023 námu styrkir til einkarekinna fjölmiðla 470 milljónum króna sem dreifðust á 25 rekstraraðila. Á sama tíma hlaut Ríkisútvarpið tólffalt hærra framlag en allir einkareknir fjölmiðlar samanlagt. Það má öllum vera ljóst að þessir styrkir duga skammt til að jafna þennan mikla aðstöðumun.

Ríkisstjórnin hefur nú boðað enn einn plásturinn. Nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir því að draga úr stuðningi við stærri fjölmiðla, þá sem raunverulega eiga í samkeppni við Ríkisútvarpið. Á sama tíma og mælt var fyrir málinu á Alþingi bárust fréttir af minnkandi umsvifum hjá Stöð 2. Á sama tíma heldur RÚV áfram að stækka. Það er viss kaldhæðni í þessu.

Stóra verkefnið er að ráðast á fílinn í stofunni, setja umsvifum hins opinbera skýr mörk og tryggja að einkareknir fjölmiðlar geti blómstrað og sinnt mikilvægu hlutverki sínu. Við þurfum í raun ekki bara að ræða fílinn í stofunni, við þurfum að fjarlægja hann.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. aslaugs@althingi.is

Höf.: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir