Sakborningar Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember árið 2023.
Sakborningar Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember árið 2023. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ótvírætt sýnt þann ásetning í verki. Hryðjuverkamálið og skilyrði tilraunaábyrgðar er heitið á grein Hafsteins Dan Kristjánssonar, lagaprófessors við HR, sem birtist í tímaritinu Lögréttu nýverið

Baksvið

Urður Egilsdóttir

urdur@mbl.is

Ótvírætt sýnt þann ásetning í verki. Hryðjuverkamálið og skilyrði tilraunaábyrgðar er heitið á grein Hafsteins Dan Kristjánssonar, lagaprófessors við HR, sem birtist í tímaritinu Lögréttu nýverið. Þar fjallar hann um 1. mgr. 20. gr. hgl., þ.e.a.s. tilraunarákvæði hegningarlaga, og dóma Héraðsdóms Reykjavíkur og Landsréttar sem sýknuðu sakborninga hryðjuverkamálsins af tilraun til hryðjuverka. Þeir voru hins vegar dæmdir fyrir vopnalagabrot.

Í tilraunarákvæðinu kemur fram að það þurfi að sýna ótvírætt í verki ásetning til að fremja brot. Spurning Hafsteins var því: Til hvers vísar orðið ótvírætt? Hvað er það sem þarf að vera ótvírætt? Það eru þrír kostir sem koma til greina og hefur verið bent á. Í fyrsta lagi eru hertar sönnunarkröfur, þ.e.a.s. það þarf að sanna ásetninginn enn meira. Í öðru lagi er strangara ásetningsmat, þ.e.a.s. það eru ekki öll stig ásetnings sem koma til greina, en ásetningur getur verið á misháu stigi. Samkvæmt þessum kosti þarf að liggja fyrir hæsta stig ásetnings. Í þriðja lagi vísar kosturinn til hlutræna verknaðarins, s.s. að verkið sjálft þurfi að bera vitni um ásetning og það ekki með óljósum hætti heldur ótvíræðum. „Þannig að hér eru þrír túlkunarkostir sem koma til greina og þess vegna vakti þetta fræðilegan áhuga minn,“ segir Hafsteinn í samtali við Morgunblaðið.

Byggja eigi á þriðja kostinum

Hafsteinn segir að héraðsdómur virðist leggja áherslu á fyrsta túlkunarkostinn. „Það gefur til kynna að það hefur þurft að sanna þennan ásetning meira en venjulega, sem síðan gekk ekki eftir.“ Landsréttur virðist hins vegar hafa lagt áherslu á annan kostinn „og orðar það þannig að huglæg afstaða gerenda í tengslum við svona undirbúningsathafnir þarf að vera þrengri eða strangari“. Hann segir Landsrétt virðast byggja á því að meira þurfi að koma til en „bara að hafa ásetning. Það þarf að vera þá einhvern veginn strangara, jafnvel hæsta stig ásetnings, eitthvað slíkt og það gekk ekki eftir.

Í þessari grein þá segi ég að veigamikil rök þurfi til þess að byggja á þriðja túlkunarkostinum, um að þetta sé verkið sem slíkt sem þarf að bera þetta ótvírætt með sér. Þetta vísar því ekki beint til strangari ásetnings eða hertra sönnunarkrafna. Þannig að áherslan í lagagrundvellinum sjálfum, þ.e.a.s. sem matið fer síðan eftir, að hún eigi að vera önnur en virðist hafa verið í héraðsdómi og Landsrétti,“ segir Hafsteinn og bætir við: „Síðan hnykki ég á ef það þarf að gera strangari kröfur til ásetnings vegna þess að hér er um undirbúningsathafnir að ræða, að þá kann það að leiða af eðli sumra – ekki endilega allra tegunda undirbúningsathafna – að svo þarf að vera, en það leiði ekki af lagaákvæðinu. Og það sé ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að allar undirbúningsathafnir séu sama merki brenndar að þessu leyti.“ Þá segir Hafsteinn að gera eigi sömu sönnunarkröfur líkt og venjulega og í sakamálum varðandi þetta.

Skiptir máli að vita

Ef Hæstiréttur tekur málið fyrir þá gætu þeir rökstutt þriðja túlkunarkostinn?

„Já, eða þá staðfest annan af hinum tveimur. Það sem mælir með því að Hæstiréttur taki málið til meðferðar er að þetta er fordæmisgefandi mál að tvennu leyti. Annars vegar hvernig á að túlka ákvæðið um tilraun þegar um er að ræða svona undirbúningsathafnir, og þá hvaða túlkunarkostur á við. Það skiptir auðvitað máli fyrir lögregluna og saksóknara að vita í framtíðinni. Hver er grundvöllurinn? Og eftir hverju eigum við að fylgja? Og svo hitt auðvitað, að þetta er í fyrsta skipti sem reynir á meint hryðjuverk. Þannig að það skiptir máli að vita af sömu ástæðum hvaða leiðbeiningar við höfum inn í framtíðina um hvernig við eigum að bregðast við.“ Hafsteinn nefnir að ef Hæstiréttur ákveður að taka málið ekki fyrir þá „fáum við ekki þetta fordæmi frá æðsta dómstól þjóðarinnar“.

Lítið hefur reynt á tilraunarákvæðið í íslenskri réttarfarssögu. Hafsteinn nefnir í grein sinni þrjá dóma. Hann segir ekki fjallað ítarlega þar um hvað ákvæðið feli í sér. „Þetta virðist líka vera fyrsti dómurinn, allavega sem ég hef séð, þar sem dómurinn er að velta því fyrir sér hvað þetta þýði.“ Spurður hvort Alþingi ætti að skýra ákvæðið betur segir Hafsteinn það koma til greina, ásamt mögulegum fordæmisgefandi hæstaréttardómi. Hann segir að ef Hæstiréttur tekur málið fyrir og útskýri málið skýrt og sannfærandi þá þurfi væntanlega ekki að breyta lögunum, „nema löggjafinn sé bara ósammála því að þetta séu kröfurnar“. Hafsteinn segir að ef Hæstiréttur taki málið ekki fyrir og Alþingi telji að það þurfi að skera úr um þetta vafamál þá geti löggjafinn vissulega breytt ákvæðinu. Á næstu vikum kemur í ljós hvort Hæstiréttur tekur málið fyrir.

Höf.: Urður Egilsdóttir