Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Fyrirhuguð byggð á svæði nálægt ánum norðan Bakka- og Stekkjahverfis mun valda enn frekari aukningu á umferð þar.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Borgarfulltrúar hafa almennt lítið sinnt margvíslegum hagsmunamálum Breiðhyltinga. Þó eru á því nokkrar undantekningar. Fáir borgarfulltrúar búa í Breiðholtshverfum. Það kann ásamt öðru að skýra áhugaleysi margra þeirra á ýmsum hagsmunamálum íbúa Breiðholtshverfa og frumkvæðisleysi í umfjöllun um málefni hverfanna.

Það sem nú vekur áhyggjur er framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á svæði nálægt ánum norðan Bakka- og Stekkjahverfis. Óljóst er hversu þétta byggð og háa er ráðgert að byggja þar en sú byggð mun valda enn frekari aukningu á umferð norðan Bakka- og Stekkjahverfis.

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hver afstaða borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins til fyrirhugaðrar uppbyggingar á þessu svæði er. Enn fremur er mikilvægt að hann efni til íbúafundar með íbúum í Breiðholti, ekki síst í Bakka- og Stekkjahverfi og Hólahverfi, og kynni þeim fyrirhugaðar framkvæmdir og afstöðu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins til þessara framkvæmda.

Almennt þarf borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins að vera virkari í heimsóknum í einstaka borgarhluta, meðal annars efna til almennra íbúafunda þar sem hagsmunamál viðkomandi hverfa eru rædd – ekki einungis í fáein skipti á kjörtímabilinu heldur miklu oftar. Ekki skal lítið gert úr því sem borgarstjórnarflokkurinn hefur gert á þessum vettvangi, en gera má enn betur.

Höfundur er fyrrverandi borgarstjóri.

Höf.: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson