„Hafnarstjóri fór yfir málin með stjórn Faxaflóahafna á stjórnarfundi í síðustu viku. Við höfum verið í miklu breytingaferli á undanförnum árum sem hefur haft í för með sér breytingar á öllum sviðum starfseminnar og hluti af því eru breytingar í mannauðsmálum og mannauðsstefnu

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Hafnarstjóri fór yfir málin með stjórn Faxaflóahafna á stjórnarfundi í síðustu viku. Við höfum verið í miklu breytingaferli á undanförnum árum sem hefur haft í för með sér breytingar á öllum sviðum starfseminnar og hluti af því eru breytingar í mannauðsmálum og mannauðsstefnu. Við fórum yfir þessi mál sem verið hafa til umfjöllunar, sem eru starfsmannamál sem stjórn félagsins kemur ekki að, enda á ábyrgð hafnarstjóra að vinna með þau,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður stjórnar Faxaflóahafna, í samtali við Morgunblaðið.

Segja farir sínar ekki sléttar

Frásagnir fyrrverandi starfsfólks fyrirtækisins, sem segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum sínum við yfirmenn fyrirtækisins, hafa ratað inn á síður Morgunblaðsins upp á síðkastið.

Þórdís Lóa segir stjórn félagsins hafa farið í mikla stefnumótunarvinnu á síðasta ári og þar hafi sérstaklega verið lögð áhersla á ýmis mál, m.a. heilindi og fagmennsku sem og öryggismál.

„Heilindi og fagmennska er eitt af þessum stóru málum sem stjórnin hefur lagt áherslu á og nú er verið að innleiða það. Við ræddum þessi mál á þeim grundvelli, en ég sá í umfjöllun Morgunblaðsins að fyrrverandi starfsmenn eru að benda á að starfsmannamenning sé ekki góð og mér finnst mjög mikilvægt að hlusta á það og stjórnin gerir það,“ segir hún.

Spurð hvort til standi að gera eitthvað í málunum, annað en að hlusta, segir Þórdís Lóa að stjórn komi ekki að starfsmannamálum með beinum hætti.

„Okkar verkefni er að leggja línurnar og það erum við að gera, fylgjumst með, gerum mælingar og fylgjum málum eftir, enda hefur stjórn eftirlitshlutverki að gegna,“ segir Þórdís Lóa.

„En sem stjórnarformaður get ég ekki tjáð mig um einstaka starfsmannamál. Stjórn hefur mótað og þróað stefnu varðandi mannauð og þekkingu og það innifelur mannauðsmálin. Og við fylgjumst vel með,“ segir hún.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson