Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf það skýrt til kynna í viðtali við NBC að hann myndi láta af embætti að fjórum árum liðnum og því aðeins gegna embættinu í tvö kjörtímabil líkt og kveðið er á um í stjórnarskrá Bandaríkjanna.
„Ég verð átta ára forseti. Ég verð forseti í tvö kjörtímabil. Ég hef alltaf talið það mjög mikilvægt,“ sagði Trump.
Fyrirtæki Trumps, sem synir hans tveir leiða, byrjaði að selja derhúfur með áletruninni „Trump 2028“ í apríl. Þá hefur Trump lýst yfir áhuga á því að vera lengur en tvö kjörtímabil forseti. „En ég sækist ekki eftir því,“ sagði Trump.
Önnur ummæli forsetans í viðtalinu við NBC vöktu athygli en hann virtist gefa í skyn að fjöldaflutningur ólöglegra innflytjenda frá Bandaríkjunum væri mikilvægari en að virða stjórnarskrárvarinn rétt fólks til sanngjarnrar málsmeðferðar. Bandaríkjastjórn hefur þrýst á dómstóla um að heimila tafarlausa brottvísun ólöglegra innflytjenda sem sakaðir eru um að vera hluti af gengjum frá Venesúela, án þess að gefa þeim tækifæri til þess að flytja mál sitt fyrir dómara.
Í stjórnarskránni segir að „enginn einstaklingur“ eigi að vera „sviptur lífi, frelsi eða eignum án lögmætrar málsmeðferðar“.
Er blaðamaður NBC benti forsetanum á ákvæði stjórnarskrárinnar gaf Trump í skyn að það myndi hægja of mikið á sér. „Ég veit ekki. Það virðist – það gæti verið að það standi [í stjórnarskránni], en ef þú ert að tala um það þá þyrftum við að halda milljón, eða tvær eða þrjár milljónir réttarhalda,“ sagði Trump.
„Ég var kosinn til þess að koma þeim í snarhasti héðan og dómstólarnir koma í veg fyrir að ég geti það.“