Ljósufjallakerfið Virkni í kerfinu hefur aukist frá árinu 2021.
Ljósufjallakerfið Virkni í kerfinu hefur aukist frá árinu 2021. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Jarðskjálfti af stærðinni 3,1 varð í Ljósufjallakerfinu upp úr fjögur í gær en nokkur skjálftavirkni hefur verið á svæðinu upp á síðkastið. Síðast mældist skjálfti af svipaðri stærðargráðu hinn 23. apríl

Magnea Marín Halldórsdóttir

magnea@mbl.is

Jarðskjálfti af stærðinni 3,1 varð í Ljósufjallakerfinu upp úr fjögur í gær en nokkur skjálftavirkni hefur verið á svæðinu upp á síðkastið. Síðast mældist skjálfti af svipaðri stærðargráðu hinn 23. apríl.

Í gærkvöldi höfðu 33 skjálftar mælst við Grjótárvatn þann sólarhringinn.

Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir þetta dæmi um nokkuð hefðbundna virkni frá því mælingar á eldstöðvakerfinu hófust.

Aukin vöktun á svæðinu

Skjálftavirkni í Ljósufjallakerfinu hefur aukist frá árinu 2021.

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands ákváðu á síðasta ári að auka vöktun á svæðinu og var mæli komið fyrir í Hítardal, nærri upptökum skjálftanna, síðasta haust.

Virknin er að mestu á svæði í kringum þrjú vötn, Grjótárvatn, Háleiksvatn og Langavatn.

Það er þó mat Minneyjar að engin ástæða sé til að búast við eldgosi á svæðinu ef virknin helst óbreytt.

„Við fáum reglulega þrista í Ljósufjallakerfinu. Þetta eru skjálftar á mjög miklu dýpi,“ segir hún.

Skjálftar á miklu dýpi

Ljósufjallakerfið er eitt af eldstöðvakerfum Íslands. Það liggur frá Snæfellsnesi að Grábrók og dregur nafn sitt af Ljósufjöllum.

Ekki hefur gosið í kerfinu í hartnær þúsund ár.

Skjálftarnir sem þar hafa mælst upp á síðkastið eru nokkuð djúpir, yfirleitt á 15-20 kílómetra dýpi, en þykja bera vott um mögulega eldvirkni.

Höf.: Magnea Marín Halldórsdóttir