Hrafn Bragason, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands, lést 27. apríl síðastliðinn, 86 ára að aldri. Hrafn gegndi embætti hæstaréttardómara í tuttugu ár, frá 1987 til 2007. Hann var forseti réttarins árin 1994 og 1995 og varaforseti árið 1993

Hrafn Bragason, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands, lést 27. apríl síðastliðinn, 86 ára að aldri.

Hrafn gegndi embætti hæstaréttardómara í tuttugu ár, frá 1987 til 2007. Hann var forseti réttarins árin 1994 og 1995 og varaforseti árið 1993. Áður hafði hann verið borgardómari í Reykjavík um fimmtán ára skeið, frá 1972 til 1987.

Hrafn átti fimm alsystkini og tvo hálfbræður. Foreldrar Hrafns voru hjónin Helga Jónsdóttir, húsmóðir á Akureyri, og Bragi Sigurjónsson, bankaútibússtjóri, alþingismaður og rithöfundur.

Hrafn fæddist á Akureyri á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1938 og bjó fyrst á Glerárgötu 3 en síðan í Bjarkarstíg 7. Fjögurra ára fór Hrafn í Smábarnaskóla Jennu og Hreiðars, síðan Smábarnaskóla Elísabetar Eiríksdóttur og svo í Barnaskóla Akureyrar.

Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1958 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1965. Framhaldsnám stundaði hann við háskólana í Ósló (1967-1968) og í Bristol á Englandi (1973).

Samhliða dómstörfum kenndi Hrafn við lagadeild Háskóla Íslands og tók virkan þátt í félagsstörfum lögfræðinga og háskólamanna.

Hann átti sæti í stjórn Lögfræðingafélags Íslands, Bandalags háskólamanna og Dómarafélags Íslands, auk þess að sitja í yfirkjörstjórn Reykjavíkur.

Þá var hann formaður réttarfarsnefndar og einnig formaður Íslandsdeildar Amnesty International um tíma.

Hrafn leiddi fjölda nefnda á vegum stjórnvalda. Hann var m.a. formaður nefndar sem vann að undirbúningi löggjafar um frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir, á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Þá stýrði hann úttektarnefnd um starfsemi lífeyrissjóða í aðdraganda efnahagshrunsins árið 2008.

Hrafn var kvæntur Ingibjörgu Árnadóttur, bókasafnsfræðingi hjá Háskólabókasafni, sem lést árið 2007. Þau bjuggu lengst af í Vesturbænum í Reykjavík og þau eignuðust saman tvö börn, Börk og Steinunni.