Hrafn Bragason, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands, lést 27. apríl síðastliðinn, 86 ára að aldri.
Hrafn gegndi embætti hæstaréttardómara í tuttugu ár, frá 1987 til 2007. Hann var forseti réttarins árin 1994 og 1995 og varaforseti árið 1993. Áður hafði hann verið borgardómari í Reykjavík um fimmtán ára skeið, frá 1972 til 1987.
Hrafn átti fimm alsystkini og tvo hálfbræður. Foreldrar Hrafns voru hjónin Helga Jónsdóttir, húsmóðir á Akureyri, og Bragi Sigurjónsson, bankaútibússtjóri, alþingismaður og rithöfundur.
Hrafn fæddist á Akureyri á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1938 og bjó fyrst á Glerárgötu 3 en síðan í Bjarkarstíg 7. Fjögurra ára fór Hrafn í Smábarnaskóla Jennu og Hreiðars, síðan Smábarnaskóla Elísabetar Eiríksdóttur og svo í Barnaskóla Akureyrar.
Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1958 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1965. Framhaldsnám stundaði hann við háskólana í Ósló (1967-1968) og í Bristol á Englandi (1973).
Samhliða dómstörfum kenndi Hrafn við lagadeild Háskóla Íslands og tók virkan þátt í félagsstörfum lögfræðinga og háskólamanna.
Hann átti sæti í stjórn Lögfræðingafélags Íslands, Bandalags háskólamanna og Dómarafélags Íslands, auk þess að sitja í yfirkjörstjórn Reykjavíkur.
Þá var hann formaður réttarfarsnefndar og einnig formaður Íslandsdeildar Amnesty International um tíma.
Hrafn leiddi fjölda nefnda á vegum stjórnvalda. Hann var m.a. formaður nefndar sem vann að undirbúningi löggjafar um frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir, á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Þá stýrði hann úttektarnefnd um starfsemi lífeyrissjóða í aðdraganda efnahagshrunsins árið 2008.
Hrafn var kvæntur Ingibjörgu Árnadóttur, bókasafnsfræðingi hjá Háskólabókasafni, sem lést árið 2007. Þau bjuggu lengst af í Vesturbænum í Reykjavík og þau eignuðust saman tvö börn, Börk og Steinunni.