Breiðholtsskóli Einkunnir nemenda gefa ekki rétta mynd af færni þeirra að mati Hermanns. Hann segir skólanum ekki treystandi til að meta þá.
Breiðholtsskóli Einkunnir nemenda gefa ekki rétta mynd af færni þeirra að mati Hermanns. Hann segir skólanum ekki treystandi til að meta þá. — Morgunblaðið/Karítas
Hermann Austmar, faðir stúlku sem þar til nýlega var í árganginum í Breiðholtsskóla, furðar sig á því að enginn kennari í skólanum hafi vakið athygli foreldra á hve illa staddir nemendurnir í 7. bekk séu námslega

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Hermann Austmar, faðir stúlku sem þar til nýlega var í árganginum í Breiðholtsskóla, furðar sig á því að enginn kennari í skólanum hafi vakið athygli foreldra á hve illa staddir nemendurnir í 7. bekk séu námslega. Niðurstöður námsmatsins í íslensku og stærðfræði gefa dökka mynd af menntun nemendanna. Hermann segir óljóst hvort og hvernig skólayfirvöld ætli að bregðast við og bæta nemendum upp það nám sem þeir hafa farið á mis við síðustu ár.

Hermann steig fram í viðtali í Morgunblaðinu fyrr á þessu ári og lýsti einelti og ofbeldismenningu meðal nemenda sem hefur þrifist innan veggja Breiðholtsskóla. Kom þá meðal annars fram í hans máli að nánast engin kennsla hefði farið fram síðustu mánuði í árgangi dóttur sinnar og hafði Hermann miklar áhyggjur af því að dóttir hans fengi ekki menntun. Hann fékk nýverið pláss í öðrum grunnskóla í Reykjavík fyrir börnin sín.

Þann 1. janúar óskaði Hermann eftir því við skóla- og frístundasvið að námsmat yrði lagt fyrir bekkinn svo hægt væri að fá upplýsingar um yfir hvaða færni nemendurnir byggju. Í fyrstu fékk Hermann upplýsingar um að leggja ætti matið fyrir í byrjun febrúar en það tafðist. Börnin fengu síðan nokkra daga til að búa sig undir námsmatið sem var lagt fyrir í mars. Niðurstöðurnar bárust foreldrum í síðasta mánuði og þær voru svartar.

„Mér fannst skólinn, skóla- og frístundasvið og Suðurmiðstöð ekki átta sig á hvað væri að gerast með þennan hóp. Mig grunaði eftir samskipti við dóttur mína og önnur börn í þessum árgangi að þau kynnu ekki það sem þau hefðu átt að vera að læra. Þessi niðurstaða sýnir það. Það fer ekki fram nein menntun,“ segir Hermann í samtali við Morgunblaðið.

Hvernig var síðan að fá þessar niðurstöður?

„Þetta var bara nákvæmlega staðfesting á því sem ég vissi. Þetta kom mér ekkert á óvart. Og það er mjög svekkjandi að þetta kom ekki á óvart, ég viðurkenni það. En ég gerði ráð fyrir þessu og það er ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir námsmatinu. Ég óskaði líka eftir að námsmat yrði lagt fyrir í fleiri fögum en fékk þau skilaboð að það væri ekki hægt.“

Hrópandi ósamræmi

Hermann segir auk þess skjóta skökku við að skólamatið sé ekki í neinu samræmi við niðurstöður námsmatsins. Nemendur í bekknum séu almennt með fínar einkunnir og því ekkert sem gaf til kynna að þeir væru langt á eftir í námi. Þannig hafi niðurstöður úr námsmati dóttur hans til að mynda verið í hrópandi ósamræmi við skólaeinkunnirnar.

„Dóttir mín hefur aldrei fengið neikvæða umsögn í skólanum, hvorki hvað viðkemur námi né hegðun. Hún hefur aldrei fengið D eða C sem bendi til að hún kunni ekki það sem hún á að kunna.“

Hermann segir tvennt koma til greina. Annars vegar að námsmatið hafi ekki verið lagt fyrir með réttum hætti og hins vegar að skólinn sé einfaldlega búinn að gefa nemendum allt of háar einkunnir miðað við þekkingu þeirra á námsefninu sem skólinn á að vera að kenna þeim.

„Það virðist vera mikil fölsun í gangi. Þetta eru bara blekkingar.“

Ertu þá að vísa til þess að það virðist vera einkunnaverðbólga í skólanum?

„Já, miðað við þetta.“

Hermann segist hafa áttað sig á því snemma á þessu skólaári að nemendurnir í árgangi dóttur hans hafi ekki fengið þá stærðfræðikennslu sem þeir áttu að fá og því hafi hann byrjað að kenna henni fagið heima. „Það eina sem hún kann eftir veturinn er það sem ég kenndi henni.“

Hann segir engan hafa verið reiðubúinn að viðurkenna að nemendurnir stæðu ekki vel námslega.

„Skólinn veit að þau skortir færni, það fer ekkert á milli mála. En miðað við þessar niðurstöður standa þau miklu verr en jafnaldrar þeirra fyrir fimm árum. Þessi árgangur er frávik. Það hefur enginn úr skólanum komið til okkar í foreldrahópnum og sagt: „Hópurinn stendur mjög illa.“ Það hefur enginn gert það að fyrra bragði. Ég er búinn að þurfa að toga þetta upp úr þeim. Það þýðir bara að Breiðholtsskóla sem stofnun er ekki treystandi fyrir því, þegar svona kemur upp á, að þau segi bara: „Staðan er slæm, við þurfum að bregðast við þessu.“ Vegna þess að það er ekki búið að gera neitt fyrir þessi börn,“ segir Hermann.

„Þau hafa farið í hópefli og jafnréttisskólinn er búinn að koma. Málið er bara að barnið mitt öðlast ekki meiri færni í stærðfræði og íslensku í jafnréttisskólanum eða í hópefli.“

Höf.: Hólmfríður María Ragnhildardóttir