Hólmfríður María Ragnhildardóttir
hmr@mbl.is
Einn af stofnendum KEX opnar nýtt hótel undir sömu merkjum, með veitingastað og bar, síðar í þessum mánuði við Hafnarstræti á Þingeyri. Byggingin er heimamönnum vel kunnug en hún hýsti á síðustu öld eitt farsælasta kaupfélag landsins, Kaupfélag Dýrfirðinga. Hún hefur þó tekið ýmsum breytingum síðan þá en á síðustu árum var þar Hótel Sandfell.
„Við ætlum að byrja rólega og erum að breyta hótelinu á næstu misserum. Við gerum smá í sumar og gerum svo kannski meira fyrir næsta sumar. Þetta er þriggja ára verkefni,“ segir Kristinn Vilbergsson eigandi hótelsins.
Innan við tíu prósent erlendra ferðamanna sem hingað koma leggja leið sína til Vestfjarða. Kristinn segir að það muni taka tíma að fá fleiri ferðamenn á svæðið en allir muni að lokum njóta góðs af aukinni umferð um landshlutann. „Það er hægt að verja góðum tíma á Vestfjörðum, sama hvort það er við Dynjanda, Látrabjarg, á Rauðasandi eða Bolafjalli. Ég held að að einhverju leyti sé vegalengdin að Vestfjörðum lengri og flóknari í huga fólks en hún er í raun og veru. Það er nú eitt af markmiðunum að breyta því hugarfari, hvort sem það eru innlendir ferðamenn eða erlendir,“ segir Kristinn.
„Svo er hitt að Vestfirðir eru með ákveðinn eiginleika sem aðrir staðir hafa ekki. Þetta er út úr leið, þetta er ekki á hringveginum, en fyrir vikið ertu afskekktari og færð meiri frið, sem oft er kvartað yfir á fjölsóttari stöðum. Þarna færðu að vera út af fyrir þig.“
Sjálfur ólst Kristinn upp í Vesturbænum en á ættir að rekja til Vestfjarða þar sem hann hefur ferðast mikið um og dvalið. Í Reykjavík hefur hann komið á fót þekktum veitingastöðum, á borð við Dill og nafnlausa pítsustaðinn. Hann er einnig framleiðandi þáttanna Veislan sem eru ferða- og matarþættir á Rúv þar sem ferðast er víða um landið.
Þá var hann einn af stofnendum KEX í miðbæ Reykjavíkur og í Portland í Oregon í Bandaríkjunum. Hann hefur nú selt þann rekstur en á þó enn vörumerkið KEX, sem hótelið á Þingeyri mun tilheyra. Mun það bera heitið KEX Þingeyri og svipa til fyrri hótela og hostela undir sama merki. Gististaðurinn á Þingeyri mun þó einnig draga innblástur úr íslensku sveitinni á Þingeyri. „Við viljum tengja þetta við sveitarkráarmenningu og sveitahótel. Þetta er í litlu fallegu þorpi í Dýrafirði og húsið er sögulegt. Við viljum lyfta því upp og undirstrika að þarna var Kaupfélag Dýrfirðinga ásamt því að halda í okkar stílbragð.“
Hann segir markmiðið að ná til bæði heimamanna og ferðamanna, hvort sem það séu erlendir ferðamenn eða Íslendingar á ferð um landið. Þá sé stefnt að því að gera vestfirskri framleiðslu hátt undir höfði. „Við viljum gera það. Matseðillinn sem við erum að vinna í núna mun hafa skírskotun í Vestfirðina en ekki síður bara íslenskt hráefni. Þetta verður svona kráarmatur.“
21 herbergi verður í boði á KEX Þingeyri sem mun alls geta tekið á móti um fimmtíu gestum í gistingu. Kristinn segist vona að hin stórbrotna náttúra á Vestfjörðum muni laða fólk að, þar sem tækifæri til útivistar eru mörg. „Við viljum kalla eftir fólki sem langar að koma að hjóla, ganga, fara á kajak eða spila golf. Það er mikil og góð aðstaða á tjaldsvæðinu á Þingeyri. Við erum á Vestfjörðum, við viljum eðlilega tala inn í þá staðsetningu, hvað hægt er að gera þar.“
Hann segir samgöngur um Vestfirðina sífellt verða betri og svæðið því aðgengilegra, sem skipti máli fyrir heimamenn og ferðamenn sem vilji heimsækja landshlutann. Það sé vel þess virði að heimsækja svæðið yfir eina helgi.
Fyrst um sinn verður hótelið aðeins opið yfir sumartímann og hluta úr haustinu. Stefnan er þó sett á heilsárshótel. „Okkur langar að reyna hægt og rólega að teygja opnunina, reyna að byrja aðeins fyrr og fara aðeins lengra inn í haustið og kannski opna tímabundið yfir vetrartímann og kalla eftir því að fólk komi. Í dag er þetta ekki heilsársrekstur en það er mikil sumartraffík. En það má líka alveg horfa til þess að vera með ákveðin tímabil opin yfir veturinn, eins og fyrir fjallaskíði, veiðimennsku eða annað.“
Kristinn segist einnig horfa til þess að vera með alls kyns viðburði, til að mynda að fá gestakokka eða tónlistarmenn til að troða upp. „Kannski vera með bjórsmakk eða vínsmakk, reyna að vera með litlar uppákomur og krydda aðeins sjálft sumarið. Gefa fólki ástæðu til að koma umfram það sem er fyrir,“ segir hann „Ég held að þessi áfangastaður eigi mikið inni. Við treystum á að fólk fari að uppgötva meira tækifærin sem eru fyrir hendi fyrir ferðamenn á Vestfjörðum.“