HÍ Prófessor við HÍ rannsakar nú áhrif vinnuaðstæðna á líðan og heilsu starfsfólks í von um að dýpka skilning á hvað stuðlar að vellíðan í vinnu.
HÍ Prófessor við HÍ rannsakar nú áhrif vinnuaðstæðna á líðan og heilsu starfsfólks í von um að dýpka skilning á hvað stuðlar að vellíðan í vinnu.
Fólk í staðbundinni vinnu finnur fyrir meiri streitu en fólk í fjarvinnu, þó að hvert vinnufyrirkomulag hafi sína kosti og galla. Þetta sýna frumniðurstöður rannsóknar Thamar Melanie Heijstra, prófessors við félagsfræði-, mannfræði- og…

Fólk í staðbundinni vinnu finnur fyrir meiri streitu en fólk í fjarvinnu, þó að hvert vinnufyrirkomulag hafi sína kosti og galla.

Þetta sýna frumniðurstöður rannsóknar Thamar Melanie Heijstra, prófessors við félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, sem kynntar voru á vef Háskóla Íslands.

Rannsóknin fjallar um áhrif mismunandi vinnuaðstæðna á líðan og heilsu starfsfólks og er markmið hennar að dýpka skilning á því hvað stuðlar að vellíðan í vinnu.

Stuðningur frá vinnuveitanda

Frumniðurstöður sýna að þátttakendur eru yfirleitt ánægðir með vinnufyrirkomulag sitt en af 620 þátttakendum starfa 35% í staðbundinni vinnu, 11% í fjarvinnu og 54% í blandaðri vinnu.

Af þeim sem höfðu blandað fyrirkomulag sögðu 55% að helsti kosturinn væri aukinn sveigjanleiki, 38% nefndu vinnufrið og 36% skilvirkni en 21% sagði að meiri tími fyrir einkalíf og fjölskyldu skipti mestu máli.

Hvað varðar vellíðan í vinnu hafði möguleikinn á að vinna að hluta í fjarvinnu jákvæð áhrif á heilsu og líðan starfsfólks en aðrir þættir eins og stuðningur frá vinnuveitanda og samstarfsfólki skiptu einnig miklu máli.

Togstreita vinnu og einkalífs

Hvert vinnufyrirkomulag hefur sína kosti og galla. Starfsfólk í blandaðri vinnu lýsir meiri starfsánægju en upplifir einnig meiri togstreitu milli vinnu og einkalífs.

Þeir sem vinna eingöngu í fjarvinnu njóta frelsis og sjálfstæðis og finna síður fyrir vinnutruflunum en upplifa meiri félagslega einangrun, þótt það hafi ekki marktæk áhrif á andlega líðan.

Starfsfólk sem vinnur eingöngu á vinnustaðnum upplifir mest félagslegt samneyti og tengsl en greinir einnig frá meiri vinnustreitu og líkamlegum óþægindum.