Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Þessu minnisblaði var ekki ætlað að lýsa aðstæðum vegfarenda á brúnni, og það er ekki notað beint í hönnun brúarinnar. Hönnun er skv. Evrópustöðlum og íslenskum þjóðarskjölum við þá sem gilda m.a. um vindálag.“
Svo segir í athugasemd sem Magnús Arason, byggingarverkfræðingur hjá Eflu, gerir við umfjöllun Morgunblaðsins sl. fimmtudag.
Í umfjölluninni var rætt var við Harald Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og veðurfræðing, sem benti á að í skýrslu um vindafar á væntanlegri Fossvogsbrú kæmi m.a. fram að gera mætti ráð fyrir 15-20% meiri vindstyrk á brúnni en á Reykjavíkurflugvelli, en til grundvallar hefðu verið lagðar vindmælingar á flugvellinum. Dró Haraldur þær tölur í efa og giskaði á að vindurinn sem tæki í þann sem væri gangandi eða hjólandi á ferð um brúna gæti hæglega orðið vel yfir 50% meiri á brúnni en í bænum.
„Hér er gengið út frá því að í fréttinni sé vísað til minnisblaðs hönnuða frá í febrúar sem var ritað til að lýsa veðuraðstæðum í nágrenni brúarinnar. Veðurgögnin í minnisblaðinu eru byggð á þeirri veðurstöð sem næst er brúnni.
Gögn byggð á næstu veðurstöð
Tilgangurinn með útgáfunni var fyrst og fremst að upplýsa mögulega verktaka um aðstæður á svæðinu og að útgáfan geti nýst við áætlanagerð verktaka,“ segir í athugasemdinni.
„Það er ljóst að vindhraði verður meiri á brúnni en á landi við ákveðnar aðstæður. Það er mat hönnuða að sú útfærsla á brúnni sem unnið er með sé hins vegar eins hagstæð og orðið getur gagnvart því að skýla vegfarendum fyrir vindi. Er þar einkum vísað til þess að kantar hennar standa upp fyrir brúargólfið og brjóta hluta vinds sem blæs á brúna. Brú sem er að fullu lokuð hefur ekki þótt koma til greina á þessum stað af ástæðum kostnaðar, notendaupplifunar og fagurfræði.“
oej@mbl.is