Warren Buffett, fjárfestir og fimmti ríkasti maður heims, tilkynnti á hluthafafundi Berkshire Hathaway sem haldinn var um helgina að hann ætlaði sér að stíga til hliðar sem forstjóri Berkshire Hathaway.
„Sá tími er kominn að Greg [Able] ætti að taka við sem forstjóri fyrirtækisins í lok árs,“ sagði Buffett á hinum árlega hluthafafundi sem hátt í 20 þúsund manns sóttu. Verði tillaga hans um að skipa Able forstjóra samþykkt markar það tímamót hjá einu farsælasta fyrirtæki sem starfað hefur.
Buffet verður 95 ára í ágúst en hann keypti sitt fyrsta hlutabréf þegar hann var ellefu ára. Hann er af mörgum talinn besti fjárfestir sögunnar og er virði eigna hans metið á 168,2 milljarða dollara, 22.146 milljarða króna.