Sigur Forysta Albaneses, sem einkennist af yfirvegun og stöðugleika, naut stuðnings á umbrotatímum í alþjóðamálum segja sérfræðingar við AFP.
Sigur Forysta Albaneses, sem einkennist af yfirvegun og stöðugleika, naut stuðnings á umbrotatímum í alþjóðamálum segja sérfræðingar við AFP. — AFP/Saeed Khan
Verkamannaflokkur Anthonys Albaneses forsætisráðherra vann stórsigur í áströlsku þingkosningunum sem haldnar voru á laugardaginn. Talningu var ekki lokið í gærkvöldi en þó var ljóst í 137 kjördæmum hvaða þingmenn báru sigur úr býtum af 150 kjördæmum

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Verkamannaflokkur Anthonys Albaneses forsætisráðherra vann stórsigur í áströlsku þingkosningunum sem haldnar voru á laugardaginn.

Talningu var ekki lokið í gærkvöldi en þó var ljóst í 137 kjördæmum hvaða þingmenn báru sigur úr býtum af 150 kjördæmum. Verkamannaflokkurinn er með 86 þingmenn kjörna, Íhaldsflokkurinn 39, aðrir flokkar 10 sæti og óvissa ríkti í gærkvöldi um 13 þingsæti þar sem ekki var búið að telja öll atkvæðin.

„Í dag kaus ástralska þjóðin áströlsk gildi: Sanngirni, metnað og tækifæri fyrir alla,“ sagði Albanese í sigurræðu sinni í gær. „Á þessum tímum alþjóðlegrar óvissu hafa Ástralar valið bjartsýni og ákveðni.“

Peter Dutton leiðtogi Íhaldsflokksins tapaði kosningunum í sínu kjördæmi, sem hann hefur verið þingmaður fyrir í 24 ár, og missti þingsæti.

Í kjölfar niðurstöðunnar sögðust bæði sir Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands og Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna hlakka til að dýpka tvíhliða samstarf sinna ríkja við Ástralíu.

Trump hafði „klárlega“ áhrif

Framfærslukostnaður heimila, heilbrigðismál og húsnæðismál voru efst á baugi í kosningabaráttunni, en alþjóðamál vöktu líka talsverða athygli og þá sérstaklega hvernig ætti að eiga við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Mörgum fannst Dutton of líkur Trump í orðræðu og vakti það ekki mikla kátínu hjá kjósendum. Trump var ekki stærsta áhyggjuefni kjósenda, ólíkt því sem var í kosningum Kanada fyrir þremur dögum, en sumir telja þó að Trump hafi haft veruleg áhrif á umskipti Verkamannaflokksins í skoðanakönnunum og afgerandi kosningaúrslit.

Íhaldsflokkurinn hafði leitt skoðanakannanir í þrjá mánuði og vinsældir Verkamannaflokksins voru ekki miklar í byrjun árs, áður en Trump tók við embætti forseta í Bandaríkjunum.

Trump hafði „klárlega“ áhrif á kosningarnar að sögn Kate Harrison Brennan, fyrrverandi ráðgjafa Juliu Gillard fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við AFP-fréttaveituna.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson