Erlendur Ingi Jónsson
Erlendur Ingi Jónsson
Gervigreind og sjálfvirkni kalla á nýja sýn á hagkerfi, velferð og tilgang í samfélagi allsgnægðar.

Erlendur Ingi Jónsson

Skortur hefur um aldir verið undirstaða hagfræðilegrar hugsunar. Þar sem langanir og þarfir manna eru takmarkalausar en auðlindir jarðar af skornum skammti hefur hagfræðin rannsakað hvernig skynsamlegast sé að ráðstafa gæðum. Í þessum skilningi er skorturinn móðir hagfræðinnar.

Nú blasir við nýtt tímabil. Gervigreind hefur hrundið af stað róttækum breytingum á vinnu, framleiðslu og þekkingaröflun. Verk sem áður kröfðust fleiri ára menntunar eru nú unnin á sekúndum. Sjálfvirkni, þrívíddarprentun og lífverkfræði styðja við þessa þróun. Við erum að færast frá hagkerfi skorts yfir í hagkerfi allsgnægðar. AlphaFold, gervigreindarforrit sem leysti þrívíða lögun próteina, markaði tímamót í lífvísindum. Vandamál sem tók áratugi að glíma við hverfur á augabragði. Þetta er aðeins eitt dæmi um hvernig gervigreind er ekki bara verkfæri heldur umbreytandi afl.

Í heimi þar sem grunnþarfir eru uppfylltar með litlum tilkostnaði og þjónusta er sjálfvirk stendur hagfræðin frammi fyrir nýjum áskorunum. Hver er tilgangur hennar í samfélagi þar sem framleiðni er nánast óendanleg?

Í stað þess að spyrja hvernig við ráðstöfum skornum gæðum spyrjum við nú hvernig við tryggjum réttlæti, sjálfbærni og tilgang í heimi allsgnægðar. Hagfræðin mun snúast meira um þátttöku, hvatakerfi og velferð, þó að útreikningar á fórnarkostnaði og jaðarnytjum hverfi ekki alveg.

En hafa peningar þá áfram hlutverk? Í dag eru þeir gjaldmiðill, mælieining og varðveisla verðmæta. En ef flest gæði verða aðgengileg öllum, hvað mæla þeir þá? Kannski spretta fram nýir gjaldmiðlar, byggðir á trausti, virðingu eða skapandi framlagi.Ný kynslóð hugsuða þarf að endurhugsa hvernig við mælum velferð í gnægð. Hvernig við tryggjum þátttöku allra þegar vinna er ekki lengur forsenda lífsviðurværis. Hvernig við mótum hvatakerfi sem umbuna sköpun og samvinnu, ekki bara afköstum. Menntakerfið þarf einnig að breytast. Í stað þess að undirbúa fólk fyrir störf sem hverfa þurfum við að þjálfa sjálfsskilning, siðferðilega dómgreind og samskipti. Virðing manneskjunnar verður síður mæld í framleiðslugetu í samfélagi framtíðarinnar.

Ef við búum í heimi allsgnægðar, hvernig réttlætum við að sumir sitji eftir? Hvernig tryggjum við að ný tækni feli ekki í sér misrétti, heldur losi fólk undan skorti?

Í heimi þar sem vinna er val, en ekki nauðsyn, spyrjum við ekki lengur „hvað ætlar þú að verða?“ heldur „hvernig ætlar þú að lifa?“ Þetta er kjarni málsins: Tæknin getur leyst skort, en aðeins við getum svarað hvað við ætlum að gera við frelsið sem skapast. Í dag eru í þróun mannleg vélmenni og greiningarforrit sem umbreyta því hvernig við vinnum, hugsum og tökum ákvarðanir. Þetta er ekki bara efnisleg breyting heldur umbreyting á því hvernig við skipuleggjum samfélagið og skilgreinum hvað er rétt og rangt.

Og þó að efnislegur skortur hverfi mun pólitík áfram snúast um gildi, forgangsröðun og sýn á það hvað skiptir máli. Í slíku samfélagi gætu bæði sósíalistar og frjálshyggjumenn fengið sitt, grunnframfærslu án skilyrða og frelsi til að skapa. Átökin hverfa ekki en þau gætu færst frá því hvernig við dreifum takmörkuðum auðlindum yfir í dýpri spurningar um tilgang, réttlæti og þátttöku.

En við erum ekki komin þangað. Enn eru kerfin byggð á skorti. Fjárlög, skattkerfi og ríkisrekstur miða enn að takmörkunum. Þess vegna þarf að endurhugsa.

Við stöndum á tímamótum, ekki aðeins tæknilega heldur hugmyndafræðilega. Gervigreindin leysir skortinn en við verðum að svara: Hvað viljum við gera með allsgnægðina?

Höfundur er doktor í hagfræði.

Höf.: Erlendur Ingi Jónsson