Guðríður Arnardóttir
Guðríður Arnardóttir
Sá mikli arður sem þjóðin nýtur af orkuauðlindum Íslands er fyrst og fremst tilkominn vegna samninga um raforkusölu til stórnotenda.

Guðríður Arnardóttir

Sú ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar á dögunum að greiða þjóðinni út 25 milljarða arð var sannarlega ánægjuleg. Frá árinu 2021 hafa þá samanlagðar arðgreiðslur Landsvirkjunar numið um 90 milljörðum. Það er dágóð summa og hefur mikla þýðingu fyrir afkomu ríkissjóðs.

Landsvirkjun er í eigu íslensku þjóðarinnar. Landsvirkjun, sem nýtir þær auðlindir sem felast í íslensku fallvötnunum, jarðhitanum og bráðum vindinum. Það er ágætt að halda því til haga að stór hluti þessarar orku er seldur til stórnotenda raforku og er nýttur til orkusækins iðnaðar eins og álframleiðslu.

Í fyrsta lagi væri Landsvirkjun ekki þetta stórveldi sem hún er í dag ef ekki væri fyrir langtíma samninga um raforkusölu til álveranna. Samningar um raforkusölu til álversins í Straumsvík gerðu þjóðinni kleift að byggja Búrfellsvirkjun og tryggja þar með raforkuöryggi landsmanna. Samningar við álverið á Reyðarfirði gerðu okkur kleift að byggja Kárahnúkavirkjun og þar með styrkja búsetuskilyrði og samgöngur á Austfjörðum, hækka meðallaun og skapa verðmæt störf í dreifðari byggðum landsins.

Þessar ákvarðanir voru vissulega umdeildar á sínum tíma en þær hafa fyrir löngu sannað réttmæti sitt.

Eftir stendur að sá mikli arður sem þjóðin nýtur nú af þessum auðlindum okkar er fyrst og fremst tilkominn vegna samninga um raforkusölu til stórnotenda. Í gegnum opinbert eignarhald stærstu orkuframleiðenda landsins nýtur íslenska þjóðin ríkulega og vegna endurnýjanlegu orkunnar og framúrskarandi framleiðsluferla íslensku álveranna er íslenskt ál framleitt með lægsta kolefnisspor í heimi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda.

Höf.: Guðríður Arnardóttir