Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Frumvarp atvinnuvegaráðherra um stórfelldar skattahækkanir, að meginhluta til á landsbyggðina, birtist landsmönnum seinnipart síðustu viku. Ráðherrann talar um að leiðrétta þurfi veiðigjaldið, án þess að bent hafi verið á neina villu í útreikningi þess

Frumvarp atvinnuvegaráðherra um stórfelldar skattahækkanir, að meginhluta til á landsbyggðina, birtist landsmönnum seinnipart síðustu viku.

Ráðherrann talar um að leiðrétta þurfi veiðigjaldið, án þess að bent hafi verið á neina villu í útreikningi þess. Skilningsleysi á afleiddum áhrifum frumvarpsins og í raun skeytingarleysi gagnvart þeim er grafalvarlegt en stjórnarliðum virðist vera alveg sama.

Þrýstingur á enn aukna samþjöppun, þar sem smærri og millistórar útgerðir heltast úr lestinni og renna inn í þær stærri er augljós fylgifiskur frumvarpsins, nái það fram að ganga. Það hefði í raun verið heiðarlegra hefði ríkisstjórnin bara sagt frá því í upphafi að markmiðið væri aukin samþjöppun í sjávarútvegi.

Áhrif á fiskvinnslu innanlands geta orðið mjög alvarleg en því miður jákvæðari fyrir vinnslur erlendis.

Samþættingu vinnslu og veiða, sem er grundvöllur þess mikla árangurs sem íslensk fyrirtæki hafa náð á erlendum mörkuðum, er stefnt í hættu. Rúmlega 98% seldra afurða fara á erlenda markaði.

Enn er óútskýrt hvers vegna Valkyrjustjórninni er svona í nöp við þann stóra hóp kvenna sem vinnur í fiskvinnslum landsins, sérstaklega í því ljósi að fiskvinnslustörf eru orðin vel borguð, til dæmis eru laun í fiskvinnslu heilt yfir hærri en í mannvirkjagerð.

Kannski meta valkyrjurnar það svo að fáir stuðningsmenn Viðreisnar og Samfylkingar vinni í fiskvinnslunum landið um kring.

Það er langt síðan jafn eindreginn landsbyggðarskattur og atvinnuvegaráðherra mælir nú fyrir hefur komið fram, en 81% af skattspori sjávarútvegs er tilkomið vegna starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins, það eru skýr skilaboð í því.

Talnaspekingar Viðreisnar virðast svo hafa prjónað yfir sig varðandi útreikninga á áhrifum frumvarpsins.

Það skýrir vafalaust hversu erfiðlega þeim sem ætlað er að bera meginþunga gjaldsins gekk að fá gögn og forsendur útreikninga ráðherra.

Þeir sem gleggst þekkja til reksturs þeirra fyrirtækja sem bera stærstan hluta veiðigjaldsins meta það sem svo að verulegt vanmat sé á áhrifum frumvarpsins eins og það liggur fyrir.

Eitt tiltekið fyrirtæki, sem hefur greitt tæplega 300 milljónir í veiðigjald, sér nú fram á að raunverulegt veiðigjald verði rúmum 30% hærra en greinargerð frumvarpsins teiknar upp. Allt vegna skilningsleysis á raunverulegum áhrifum þess. Þarna munar miklu og heildarskekkjan verður veruleg.

Það er vont ef talnaspekingar Viðreisnar ætla sér ofan á allt annað að skattleggja sjávarútveginn um marga milljarða, umfram það sem ráðherrann telur sig vera að gera, fyrir mistök.

Hér þarf að gera betur. Í öllu falli þarf Viðreisn að gera betur.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is

Höf.: Bergþór Ólason