Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Afar mikilvægt er að fjármál Reykjavíkurborgar verði tekin föstum tökum og látið af stjórnlausri skuldasöfnun.

Kjartan Magnússon

Rekstur Reykjavíkurborgar er ekki sjálfbær þrátt fyrir hámarksskattheimtu og miklar tekjur. Jafnframt glímir borgin við mikinn skuldavanda. Þetta sýnir nýbirtur ársreikningur borgarinnar fyrir árið 2024

Borgarsjóður var rekinn með 4,7 milljarða króna afgangi á síðasta ári en samstæða borgarinnar með 10,7 milljarða króna afgangi. Það er vissulega góð tilbreyting að sjá borgarsjóð skila afgangi eftir margra ára hallarekstur. Þegar betur er að gáð sést að þessi bati verður ekki skýrður með aðhaldi og hagræðingu heldur með aukinni skattbyrði borgarbúa og miklum óreglulegum tekjum.

Til að sveitarfélag geti talist fjárhagslega sjálfbært þurfa rekstrartekjur hvers árs að standa undir rekstrargjöldum, vaxtagjöldum og afborgunum langtímalána. Þegar borgarsjóður er skoðaður, standa skatttekjur ásamt framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga ekki undir þessum gjöldum. Bilið er brúað með eignasölu og milljarða króna arðgreiðslum frá borgarfyrirtækjum. Þótt slíkar óreglulegar tekjur hafi komið rekstrinum yfir núllið að þessu sinni, er ekki hægt að treysta á þær til framtíðar og því ekki um sjálfbæran rekstur að ræða. Ef áfram verður gerð há arðgreiðslukrafa til Orkuveitunnar er hætt við að það komi niður á uppbyggingu og endurnýjun veitukerfa. Skuldir Orkuveitunnar jukust um 10% á síðasta ári og námu 244 milljörðum króna um áramót.

Skatttekjur borgarinnar hafa vaxið verulega vegna hækkana á útsvari og fasteignasköttum. Skatttekjur hækkuðu nánast jafnmikið og afkoman batnaði eða um rúmlega níu milljarða króna. Greiðslur úr Jöfnunarsjóði jukust um 27% á milli ára eða um tæpa fjóra milljarða.

Mikil hækkun á fasteignamati hefur í för með sér að borgarbúar greiða nú rúmum átta milljörðum meira í fasteignaskatta og lóðarleigu árlega en í upphafi kjörtímabilsins. Mörg sveitarfélög hafa brugðist við þessari hækkun fasteignamatsins með því að lækka álagningarhlutfallið en ekki vinstri meirihlutinn í Reykjavík.

Þrátt fyrir hávært tal um hagræðingu hækkaði launakostnaður milli ára um 6,5% hjá borgarsjóði og 6,7% hjá samstæðunni. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 9% hjá borgarsjóði og 8,8% hjá samstæðunni.

15 milljónir á fjölskyldu

Skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar hækkuðu um tæplega þrjátíu milljarða króna á árinu eða um 6%. Borgarstjórn hefur þannig skuldsett hvern íbúa sinn um tæpar 3,8 milljónir og hverja fjögurra manna fjölskyldu um rúmar fimmtán milljónir króna.

Útlitið er ekki gott því áætlað er að skuldir Reykjavíkurborgar haldi áfram að aukast. Samkvæmt fjárhagsáætlun munu þær hækka um 33 milljarða króna á árinu 2025 og nema um 559 milljörðum króna í árslok.

Feikileg fjármagnsgjöld

Það er dýrt að skulda. Gegndarlaus skuldasöfnun Reykjavíkurborgar hefur leitt til þess að fjármagnsgjöld eru ein helsta stærðin í bókhaldi hennar. Borgin er því afar berskjölduð fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum. Háar skuldir og fjármagnsgjöld lenda á endanum á borgarbúum með einum eða öðrum hætti.

Fjármagnsgjöld samstæðu Reykjavíkurborgar námu 26 milljörðum króna á síðasta ári. Sú upphæð er hærri en rekstrarframlag borgarinnar á því ári, til allra níutíu leikskóla borgarinnar, borgarrekinna sem sjálfstætt rekinna. Blóðugt er að verja svo hárri fjárhæð í vaxtagjöld og verðbætur en þetta er ein birtingarmynd hárra og illviðráðanlegra skulda.

Fráfarandi borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, sýndi vissulega viðleitni í því skyni að ná tökum á fjármálum borgarinnar en komst að því fullkeyptu hjá vinstri flokkunum, sem hafa ekki áhuga á raunverulegri hagræðingu.

Afar mikilvægt er að fjármál Reykjavíkurborgar verði tekin föstum tökum og látið af stjórnlausri skuldasöfnun. Til þess þarf að endurskoða allan rekstur og ráðast í víðtækan sparnað og hagræðingu. Ólíklegt er að vinstri meirihlutanum takist að koma fjármálunum í lag á yfirstandandi kjörtímabili enda styttist það óðum. Mikið verk bíður því næstu borgarstjórnar við að koma fjárhagnum á réttan kjöl eftir langt tímabil óráðsíu og skuldasöfnunar.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Kjartan Magnússon