Ég ólst upp í litlu íslensku sjávarþorpi með 595 íbúa þar sem lífið iðaði af krafti árið 1974. Sjávarútvegurinn var hjarta samfélagsins og mótaði bernsku mína á ógleymanlegan hátt. Ellefu ára gömul hóf ég störf í frystihúsinu. Ég var uppburðarlítil í upphafi og vann með grjóthörðum fiskvinnslukonum sem nýverið höfðu fengið hraðabónus. Hörkukonur sem voru vægt sagt pirraðar yfir því að þurfa að vinna við hlið svo ungs og óreynds starfskrafts.
Þrátt fyrir fámennið blómstraði þorpið okkar með apóteki, pósthúsi, kaupfélagi, sláturhúsi, fiskimjölsverksmiðju, sundlaug, rækjuvinnslu og glæsilegu félagsheimili. Faðir minn, einstæður með okkur þrjú systkinin á framfæri, gat meira að segja byggt eigið einbýlishús á nokkrum árum þrátt fyrir bág kjör. Stærstur hluti launanna minna rann beint til fjölskyldunnar svo hún kæmist af.
Við börnin upplifðum vinnuna ekki endilega sem neikvæða reynslu, þótt auðvitað sé það ekki eftirsóknarvert að börn vinni frá unga aldri. Það var lærdómsríkt að finna hvernig bæjarlífið bæði dafnaði og nærðist vegna nægrar atvinnu tengdrar sjávarútvegi. Ungdómurinn varð snemma mikilvægur og ómissandi hluti samfélagsins.
En með tilkomu kvótakerfisins 1983 tók framtíð þorpsins okkar að dökkna. Íbúum hefur fækkað um 191 síðan þá, úr 653 í 462. Þorpið mitt er einungis ein saga af 28 byggðarlögum sem hafa orðið fyrir barðinu á kvótabraskinu, þar sem útgerðir seldu kvóta úr byggð þvert á gefin loforð. Sjálfbær samfélög með næga atvinnu hafa þróast í gagnstæða átt. Akranes, Tálknafjörður, Bíldudalur og fjölmörg önnur byggðarlög bera þess merki hvernig kvótabraskið setti mark sitt á samfélögin. Eftir sitja íbúar með svikin loforð, skert lífsgæði og eignir sem hafa tapað verðgildi sínu. Í mörgum tilfellum hefur þetta leitt til þess að ungt fólk sér ekki framtíð í heimabyggð sinni og flytur á brott.
Stærri útgerðir tóku að bólgna út á kostnað þeirra minni og hlúðu vissulega vel að eigin hagræðingu og hagnaði – en beinlínis á kostnað landsbyggðarinnar. Þetta er að mínu mati harmleikur sem hefur endurtekið sig í of mörgum byggðarlögum landsins. Afleiðingarnar eru ekki aðeins efnahagslegar heldur einnig félagslegar og menningarlegar.
Veiðigjöld af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hafa hingað til verið „gjöf en ekki gjald“, í engu samræmi við raunverulegan hagnað útgerðanna, á meðan landsbyggðin hefur goldið nóg. Það er ekkert annað en lágmarkskrafa að greitt verði sanngjarnt veiðigjald sem verði nýtt til að styrkja byggðir landsins. Þetta snýst um fólk og samfélög sem hafa þurft að þola afleiðingar misheppnaðrar byggðastefnu í þágu stórútgerða. Nú er kominn tími til að rétta hlut landsbyggðarinnar og tryggja að auðlindir hafsins gagnist öllum landsmönnum.
Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins í Suðurkjördæmi.