Þingmönnum Miðflokksins hefur á yfirstandandi þingi orðið tíðrætt um hin ýmsu mál eins og eðlilegt er í pólitík. Það verður þó að segjast að hjá þessum meisturum málþófsins hefur magnið gjarnan verið á kostnað gæðanna. Nýleg grein hér í blaðinu er gott dæmi um þetta.
Formaður þingflokks Miðflokksins fer í greininni yfir nokkur atriði sem honum þykja tyrfin í frumvarpi atvinnuvegaráðherra, Hönnu Katrínar Friðriksson, um leiðréttingu veiðigjalda. Svo sem áhyggjur af aukinni samþjöppun í greininni, minnkandi hlutdeild innlendrar vinnslu, og mögulegum mistökum í útreikningum á gjaldinu. Raunar eru þessar áhyggjur ekkert nýtilkomnar og þessum atriðum eru sérstaklega gerð skil í frumvarpinu um leiðréttingu veiðigjalda. Í sem stystu máli segir þar að komið sé sérstaklega til móts við litlar og meðalstórar vinnslur. Undir þetta hefur, meðal annars, bæjarstjóri Snæfellsbæjar tekið. Engum verður ókleift að reka áfram saman veiðar og vinnslu. Eingöngu er verið að koma í veg fyrir að ógagnsæ verðmyndun á afla verði reiknigrundvöllur veiðigjalds, sú hagkvæmni sem samþættingin hefur leitt af sér verður áfram til staðar. Áhrif leiðrétts veiðigjalds hafa þá verið reiknuð og gerð grein fyrir þeim í greinargerð með frumvarpi og fylgigögnum.
Og endalaust er kvartað undan því að það vanti gögn. En bara sum gögn því Miðflokkurinn vildi alls ekki að tekin yrðu saman gögn í nýrri skýrslu um fjárfestingar sjávarútvegsins í óskyldum atvinnugreinum. Hinir nýju Píratar í Sjálfstæðisflokknum vildu heldur ekki sjá þau gögn.
Það er raunar engu líkara af málflutningi Miðflokksins að dæma en að flokkurinn hafi aldrei myndað sér skoðun á nýtingu sameiginlegra auðlinda allra landsmanna. Hið minnsta er lítið vísað til hennar í ræðu og riti. Þó er það nú svo að stefna flokksins í þessum efnum er til og má nálgast á heimasíðu flokksins. Þar segir: „Miðflokkurinn vill að veiðigjöld séu gagnsæ, einföld og að við útreikning þeirra sé gætt jafnræðis.“ Sem er einmitt það sem frumvarp atvinnuvegaráðherra gengur út á. Að leiðrétta reiknireglu veiðigjalda og tryggja þannig þetta mikilvæga gagnsæi og jafnræðið sem Miðflokkurinn kallar eftir í sinni eigin stefnu en kannast svo ekki við í andstöðunni.
Raunin er sú að meirihluti þjóðarinnar styður leiðréttingu veiðigjalda. Viðreisn hefur talað fyrir því að þjóðin njóti sanngjarns endurgjalds fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum. Sú leiðrétting sem lögð hefur verið fyrir þingið er gagnsærri, einfaldari og tryggir jafnræði meðal greiðenda.
Það væri á því bragur ef Miðflokkurinn tæki sig nú til og stæði með Viðreisn og meirihluta þjóðarinnar. Til vara mætti einfaldlega kalla eftir því að flokkurinn standi með eigin stefnu.
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. sigmar.gudmundsson@althingi.is