Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað þetta ár samvinnuhreyfingum um allan heim undir yfirskriftinni „Samvinna um betri heim“. Þar er horft til jákvæðra samfélagslegra áhrifa samvinnufélaga og hvernig þau hafa leyst margar áskoranir samtímans, einkum á sviði efnahags- og félagsmála

Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað þetta ár samvinnuhreyfingum um allan heim undir yfirskriftinni „Samvinna um betri heim“. Þar er horft til jákvæðra samfélagslegra áhrifa samvinnufélaga og hvernig þau hafa leyst margar áskoranir samtímans, einkum á sviði efnahags- og félagsmála.

Samvinnuhreyfingin á Íslandi á rætur að rekja til ársins 1882, þegar Kaupfélag Þingeyinga var stofnað. Á þessum tíma höfðu kjör bænda versnað verulega, einkum vegna hás vöruverðs og einokunar kaupmanna. Bændur vildu tryggja sér betri viðskiptakjör með því að sameinast um vörukaup og sameiginlega sölu afurða. Stofnun félagsins markaði upphaf nýrrar fjöldahreyfingar meðal Íslendinga og innan fárra áratuga spruttu kaupfélög upp víða um land.

Fyrstu kaupfélögin voru hluti af þjóðernisvakningu og sjálfstæðisbaráttu 19. aldar. Fjöldi samvinnufélaga var stofnaður, einkum á Norðurlandi og Austurlandi. Þar má nefna Kaupfélag Eyfirðinga (KEA), stofnað 1886, og Kaupfélag Skagfirðinga (KS), stofnað 1889, auk fjölmargra smærri félaga um land allt. Áhrif hreyfingarinnar voru víðtæk og um tíma var þriðjungur þjóðarinnar félagar í samvinnufélögum.

Framgangur samvinnuhreyfingarinnar skipti sköpum fyrir efnahagslega þróun Íslands á 20. öld. Efnahagsleg framþróun Íslands varð hraðskreiðari og bjó til meiri jöfnuð vegna samvinnuhugsjónarinnar. Samvinnuhreyfingin kom að mörgum mikilvægum félagslegum verkefnum, til dæmis í húsnæðismálum, þar sem byggingarsamvinnufélög reistu fjölbýlishús víða um þéttbýli. Þannig ruddi hreyfingin brautina fyrir atvinnuþróun og innviðauppbyggingu í fjölmörgum byggðarlögum, oft í samstarfi við bænda- og verkalýðshreyfingar.

Samvinnufélög eru stofnuð af einstaklingum til að vinna að sameiginlegum hagsmunum og eru jafnan rekin á lýðræðislegum grunni. Hagnaði þeirra er ráðstafað til sameiginlegra sjóða og uppbyggingar fremur en að vera greiddur út sem arður. Meginmarkmiðið er að byggja upp nærsamfélagið og veita félagsmönnum hagkvæma þjónustu. Níu kaupfélög eru starfandi í dag og eru öll að efla nærsamfélag sitt.

Samvinnuformið á enn fullt erindi í nútímalegt íslenskt rekstrarumhverfi. Með samþykkt nýrrar löggjafar á síðasta þingi hefur stofnun samvinnufélaga verið einfölduð; lágmarksfjöldi stofnenda var lækkaður úr 15 í 3 aðila. Á sama tíma og gervigreind mun hafa djúpstæð áhrif á vinnumarkaðinn gefast ný tækifæri til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar með aðstoð samvinnufélaga.

Stærstu breytingar á vinnumarkaði í áratugi eru fram undan. Ísland býr yfir öllum forsendum til að nýta gervigreindina til að auka hagvöxt og velsæld. Til þess þarf samvinnuhugsjónina – nú meira en nokkru sinni fyrr.

Höfundur er varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Höf.: Lilja Dögg Alfreðsdóttir