Besta deildin
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Víkingar eru efstir í Bestu deild karla í fótbolta með betri markatölu en Vestri og Breiðablik eftir sigur á FH, 3:1, í gærkvöld.
FH-ingar hreinlega gáfu þeim tvö markanna og eftir að Daníel Hafsteinsson skoraði þriðja mark Víkinga var sigur þeirra ekki í hættu.
Vestri hélt áfram sigurgöngunni og lagði Aftureldingu 2:0 á Ísafirði þar sem miðvörðurinn Morten Ohlsen Hansen var maðurinn á bak við bæði mörkin.
KA situr á botninum ásamt FH en tapaði naumlega, 1:0, fyrir Breiðabliki á Akureyri þar sem mark Arons Bjarnasonar skildi liðin að.
Alexander Rafn Pálmason varð yngsti markaskorari deildarinnar frá upphafi, 15 ára og 33 daga gamall, þegar hann skoraði fyrsta mark KR í 4:1-sigri á Eyjamönnum. Eiður Gauti Sæbjörnsson skoraði tvö markanna.
Benedikt V. Warén lagði upp bæði mörk Stjörnunnar sem vann Fram, 2:0, og rétti sig við eftir þrjá tapleiki í röð.
Valsmenn skutu Skagamenn í kaf á Hlíðarenda, 6:1, og ÍA hefur þar með tapað tvisvar í röð með fimm marka mun í höfuðborginni. Patrick Pedersen, Lúkas Logi Heimisson og Tryggvi Hrafn Haraldsson skoruðu tvö mörk hver.